Auglýsing

Örskýring: Íslendingar blekktir þegar hlutur ríkisins í Búnaðarbankanum var seldur

Um hvað snýst málið?

Stjórnvöld, almenningur og fjölmiðlar voru blekktir þegar hlutur ríkisins í Búnaðarbankanum var seldur í byrjun árs 2003. Þetta kemur fram í niðurstöðum skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis sem voru kynntar á blaðamannafundi í dag.

Leynilegir samningar voru gerðir til að láta eins og þýski bankinn Hauck & Auf­häuser tæki þátt í kaupum á hlutnum ásamt S-hópinum svokallaða, sem samanstóð af Eglu ehf., Eignarhaldsfélaginu Samvinnutryggingum, Samvinnulífeyrissjóðnum og Vátryggingafélagi Íslands.

Hauck & Auf­häuser var aldrei raunverulegur eigandi að hlutum í Búnaðarbankanum.

Hvað er búið að gerast?

Ólafur Ólafsson stýrði verkefninu frá A til Ö. Þetta sagði Finnur Vilhjálmsson, starfsmaður nefndarinnar, á blaðamannafundinum í dag. Ólafur kom ekki með neitt fé inn í viðskiptin um kaup hlut ríkisins í Búnaðarbankanum en hagnaðist um milljarða á fléttunni.

Kaupandinn var í raun og veru aflandsfélagið Welling & Partner, sem er skráð á Bresku Jomfrúareyjunum. Kaupþing í Lúxemborg fjármagnaði kaup félagsins á hlutnum í Búnaðarbankanum og hagnaður viðskiptanna var á endanum rúmlega 100 milljónir dala.

Hagnaðurinn varð til þegar hluturinn sem talið var að Hauck & Aufhäuser hafi keypt var seldur en hann hækkaði mikið í verði eftir að Búnaðarbankinn og Kaupþing sameinuðust undir merkjum Kaupþings. Hagnaðurinn rann til aflandsfélags Ólafs Ólafssonar og aflandsfélags sem rannsóknarnefndin telur að Kaupþing eða stjórnendur þess hafi stýrt.

Ólafur Ólafsson og líklega Kaupþing eða stjórnendur þess högnuðust um milljarða króna á fléttunni. Ekkert þykir benda til þess að öðrum innan S-hópsins hafi verið kunnugt um þessa leynilegu samninga. Talið er að þeir hafi trúað því að Hauck & Auf­häuser væri raunverulegur eigandi þess hlutar sem bankinn var skráður fyrir.

Hvað gerist næst?

Kjartan Bjarni Björgvinsson, formaður rannsóknarnefndar Alþingis, sagði á fundir stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis að það hefði verið útilokað fyrir nefndina að fjalla um meinta refsiverða háttsemi í skýrslunni. Þá væru fjórtán ár liðin frá viðskiptunum og hugsanleg brot mögulega fyrnd.


Örskýringar eru 200 orða fréttaskýringar Nútímans um mál sem mikið er fjallað um. Sendu okkur póst ef þú ert með hugmynd að örskýringu.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing