Sveitarfélög mega ekki krefjast þess að konur hylji brjóst sín í sundlaugum á vegum þeirra. Þetta er álit Unnars Steins Bjarndal, hæstaréttarlögmanns, en Íþrótta- og tómstundaráð Reykjanesbæjar fékk hann til að fjalla um málið. Þetta kemur fram á RÚV.
Sjá einnig: Ber kvenmannsbrjóst velkomin í sundlaugina á Akranesi
Tilefni álitsgerðarinnar var mikil umræða um það í samfélaginu um hvort fyrir hendi séu reglur, skráðar eða óskráðar, sem gilda um klæðaburð sundlaugargesta.Unnar komst að þeirri niðurstöðu að ekki sé lagalegur grundvöllur fyrir því að sveitarfélög setji sundlaugargestum skorður varðandi klæðaburð.
Líkt og Nútíminn greindi frá fyrr á þessu ári var berbrjósta konu vísað upp úr Jaðarsbakkalaug á Akranesi. Eftir þetta sendu formaður Íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur og forstöðumaður sundlauga Reykjanesbæjar frá sér yfirlýsingu um að fólk væri velkomið í sundlaugar berbrjósta, líkt og kemur fram í frétt RÚV.
Eftir þetta ákvað Íþrótta- og tómstundaráð Reykjanesbæjar að óska eftir áliti um málið, annars vegar um hvort það væru í gildi reglur, skráðar eða óskráðar, sem banna konum að fara berbrjósta í sundlaugar Reykjanesbæjar og hins vegar hvort heimilt væri að setja slíkar relgur.