Einar Ágústsson, annar bræðranna sem söfnuðu metfjárhæð á fjármögnunarsíðunni Kickstarter árið 2015 og stofnuðu trúfélagið Zuism, neitar að hafa blekkt fjóra einstaklinga sem létu hann hafa 74 milljónir.
Fólkið hélt að peningarnir yrðu notaðir til fjárfestinga í fjárfestingasjóði. Einar er ákærður fyrir hafa svikið út peningana á árunum 2009 til 2013 en aðalmeðferð í málinu hófst í Héraðsdómi Reykjaness í dag. Fjallað er um málið á Vísi.
Sjá einnig: Ný gögn í máli trúfélagsins Zúista tefja niðurstöðu um framtíð þess enn frekar
Einar og bróðir hans, Ágúst Arnar, hafa ekki aðeins ratað í fjölmiðla vegna söfnunarinnar. Þeir stofnuðu trúfélagið Zuism árið 2013. Þar sem meðlimir félagsins voru aðeins þrír árið 2014, þegar ný reglugerð þar sem kveðið var á um fjölda meðlima tók gildi, fór svo að nýr hópur gaf sig fram til að sitja í stjórn félagsins og fara með forstöðu þess.
Hópurinn vildi endurgreiða meðlimum félagsins sóknargjald sem dregið er að meðlumum trúfélaga í formi skatts. Meðlimum fjölgaði á ógnarhraða og fljótlega átti félagið tilkall til 33 milljóna í formi sóknargjalda.
Þá birtust bræðurnir Einar og Ágúst, töldu sig enn vera í forsvari fyrir rekstrarfélag Zuism og höfðu mál á hendur Ríkissjóði Íslands til að fá greidd sóknargjöld félagsins sem stjórn félagsins vildi greiða félögum. Þeir töpuðu málinu en enn liggur ekki fyrir hvað verður um trúfélagið.
Í fjársvikamálinu sem er til umfjöllunar í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag er Einar ákærður, ásamt félaginu Skajaquoude ehf., sem hann er í forsvari fyrir, fyrir að hafa blekkt fjóra einstaklinga sem létu hann hafa milljónirnar í þeirri trú að féð yrði nýtt til fjárfestinga í fjárfestingasjóði.
Vitni í málinu segir að Einar hafi tekið á móti tíu milljónum í plastpoka í október árið 2010.
Einari er gefið að sök að hafa frá upphafi bellkt aðila málsins með því að halda röngum upplýsingum að þeim aðilum sem lögðu til fé í fjárfestingarsjóð Einars en í ákærunni er því haldið fram að sjóðurinn hafi aldrei verið starfræktur í eiginlegri mynd, líkt og kemur fram í umfjöllun Vísis um málið.