Sigurlaug Hreinsdóttir, móðir Birnu Brjánsdóttur sem myrt var í janúar á þessu ári, biður fjölmiðla um að leita ekki eftir hennar skoðun á framgangi sakamálsins sem fljótlega fer fyrir dómstóla. Hún segist ekki hafa fylgst með rannsókn málsins og hún muni ekki fylgjast með málinu. mbl.is greindi frá.
Þetta kemur fram á Facebook-síðu hennar. Thomas Møller Olsen, grænlenskur karlmaður, hefur verið ákærður fyrir að hafa að hafa myrt Birnu af ásetningi auk þess að hafa staðið í smygli af fíkniefnum. Málið verður tekið fyrir í héraðsdómi á næstunni.
„Nú þegar málaferli í máli Elsku Birnu minnar eru að fara að hefjast þá vil ég taka fram að ég hef ekki fylgst með rannsókn málsins og ég mun ekki fylgjast með málinu, ég óska því eftir því að fjölmiðlar virði þá ákvörðun mína og leiti ekki eftir minni skoðun varðandi það. Ég er að leitast við að ná fótfestu aftur á mínum forsendum og allt slíkt myndi valda mér óþægindum,“ segir í færslu móður Birnu.