„Nú er til mikils að vinna. Í samstarfi við Weber MT ætlum við að gefa eitt stykki Weber jarðvegsþjöppu að andvirði 374 þúsund krónur.“
Þetta kemur fram í gjafaleik verslunarinnar Merkúr sem hefur slegið í gegn á Facebook-síðu verslunarinnar. Þegar þetta er skrifað hafa á þriðja þúsund manns tekið þátt í leiknum með því að deila færslunni og þannig freistað þess að vinna jarðvegsþjöppuna.
Og það er ekki skrýtið enda kemur fram í færslunni að þjappan sé hlaðin aukabúnaði; með vatnstanki, flutningshjóli og hellumottu. Kristófer S. Snæbjörnsson. sölustjóri í véladeild Merkúr, segir í samtali við Nútímann að vinsældir leiksins hafi komið skemmtilega á óvart. „Þetta er með ólíkindum,“ segir hann.
Húsmæður í Vesturbænum eru sérstaklega duglegar að taka þátt. Þær eru mjög spenntar að fá eitthvað til að þjappa.
Aðspurður segir Kristófer að verktakar í öllum geirum séu í meirihluta í kúnnahópi verslunarinnar. „En viljum ná til fleira fólks,“ segir hann. Og það hefur tekist. Lækum rignir inn á síðu Merkúr og miðað við athugasemdirnar er ótrúlegasta fólk gríðarlega spennt fyrir jarðvegsþjöppunni, sem virðist vera nauðsynleg á hvert heimili.
„Við höfum bara gaman að þessu. Kommentin sum eru alveg ótrúlega fyndin. Ég hef ekki komist í að lesa þetta allt — þetta verður lesturinn um helgina,“ segir Kristófer.
En er jarðvegsþjappan þarfaþing á hvert heimili?
„Já, eigum við ekki að segja það. Ekki spurning! Maður veit aldrei hvað maður þarf að þjappa.“