Þó ýmislegt bendi til þess að toppi hagsveiflunnar sé náð er bölvað vesen á húsnæðismálum. Atli Fannar fór yfir það í Vikunni með Gísla Marteini í gær ásamt ýmsu öðru og velti fyrir sér hvort starfsfólk IKEA setji saman blokkina sem verslunin ætlar að byggja. Horfðu á myndbandið hér fyrir neðan.
Atli benti einnig á hversu furðulegt það er að fólk hafi krafist þess að Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, myndi flytja út úr þröngri stúdíóíbúð, þar sem hann býr umkringdur dauðþreyttum eða dauðadrukknum námsmönnum sem eru flestir tíu ef ekki tuttugu árum yngri en hann.
Í dag eru slíkar íbúðir takmörkuð auðlind sem varð til þess að Jón Þór ákvað að hleypa öðrum að.
Dagur B. Eggertsson tilkynnti í vikunni að Reykjavíkurborg hafi loksins uppfært áætlanir sínar og vilji nú að 1.250 íbúðir verði byggðar á ári næstu árin. Þá er verið að byggja á þriðja þúsund íbúða og annað eins hefur verið samþykkt í deiliskipulagi.
„Þetta eru semsagt góðar fréttir fyrir þau sem óttuðust að framboð húsnæðis fyrir ferðamenn á AirBnB myndi ekki halda í við eftirspurnina,“ sagði Atli Fannar.