Farþegar á leið 11 í Strætó í dag urðu vitni að því þegar bílstjórinn stöðvaði vagninn til að faðma og hughreysta konu sem hafði brotnað niður í sæti sínu.
Jóhann Óli Eiðsson blaðamaður hrósaði bílstjóranum fyrir viðbrögðin á Twitter í dag. Nútíminn hafði samband við Jóhann sem segist hafa tekið eftir að konan hafði verið í einhverjum vandræðum með Strætó-appið og meðal annars afþakkað hjálp frá konu sem bauðst til að greiða fargjaldið fyrir hana.
Hey @straetobs. S/o á bílstjórann á leið 11 áðan sem stoppaði vagninn til að hughreysta og faðma konu sem brotnaði niður fyrir framan hann.
— Jóhann Óli Eiðsson (@jedissson) April 9, 2017
Eftir að vandræðin héldu áfram settist konan niður fremst í vagninn og brotnaði niður. „Á endanum fór það svo að vagnstjórinn stoppaði á næsta stoppi. Kom út úr búrinu sínu og faðmaði hana heillengi,“ segir Jóhann Óli.
Jóhann Óli veit ekki hvers vegna konan brotnaði niður og yfirgaf vagninn á augnablikinu sem þessi fallega stund átti sér stað.