Þuríður Sigurðardóttir, húsmóðir í Hnífsdal, datt í lukkupottinn þegar hún vann hina eftirsóttu Weber jarðvegsþjöppu. Nokkur þúsund manns tóku þátt í gjafaleik verslunarinnar Merkúr og freistuðu þess að eignast tryllitækið.
Þegar Nútíminn fjallaði um gjafaleikinn sagði Kristófer S. Snæbjörnsson, sölustjóri í véladeild Merkúr, að ótrúlegasta fólk væri gríðarlega spennt fyrir jarðvegsþjöppunni sem virðist vera þarfaþing á hverju heimili. Það er einmitt raunin hjá Þuríði og fjölskyldu, þar er jarðvegsþjappan kærkomin viðbót.
Sjá einnig: Húsmæður í Vesturbænum vilja vinna jarðvegsþjöppu: „Maður veit aldrei hvað maður þarf að þjappa“
Í samtali við Nútímann segir Þuríður að vinningurinn komi sér mjög vel en hún er að gera upp rúmlega aldargamalt hús í Hnífsdal.
„Það er verkefni framundan, þess vegna tók ég nú þátt. Ég er að gera upp mjög gamalt hús og það þurfti að rífa allt upp í kringum það. Ég sá fram á að þurfa að bera í þetta sand og mold og ýmislegt. Síðan þarf náttúrulega að þjappa þetta. Hún á eftir að koma sér vel,“ segir Þuríður.
Sigurinn kom henni virkilega á óvart og er hún enn í skýjunum. Jarðvegsþjappan mun ekki aðeins koma að góðum notum hjá henni heldur hafa nokkrir á svæðinu haft samband og óskað eftir því að fá þjöppuna lánaða. „Hún á eftir að fara víða,“ segir Þuríður.