Í dag eru tvær vikur þangað til að Svala Björgvinsdóttir stígur á svið í Kænugarði í Úkraínu og flytur framlag Íslands, Paper, í Eurovision. Hún keppir við sautján lönd um að komast upp úr fyrri undanúrslitariðlinum.
Sérfræðingar eru löngu byrjaðir að spá í spilin, áhugafólk í Evrópu er að leggja lokahönd á árlega stigagjöf sína og margir hafa þegar veðjað á úrslitin. Fjörutíu og tvö lönd taka þátt í ár. Rússland dró sig nýlega úr keppninni og verður þetta í fyrsta skipti frá árinu 1998 sem landið er ekki með.
Átján lönd taka þátt í hvorri undankeppninni. Úkraína fer beint í úrslitin sem sigurvegari síðasta árs og þá fara Ítalía, Spánn, Bretland, Frakkland og Þýskaland einnig beina leið í úrslitin eins og venjulega þar sem löndin borga mest til keppninnar.
Nútíminn fór yfir stöðu mála og kannaði hvaða lönd eru talin líklegust til árangurs, bæði þegar á heildina er litið og í riðli Íslands. Hvaða lönd verða helsta samkeppni Svölu? Verður miðillinn YouTube sannspár um úrslit keppninnar í ár? Hvaða áhrif mun fjarvera Rússlands hafa á keppnina?
Hvað segir áhugafólkið?
Á hverju ári standa samtökin OGAE International, regnhlífasamtök allra OGAE Eurovisionklúbbanna, fyrir kosningu meðal félagsmanna þar sem þeir velja sín eftirlætis lög í keppninni það árið. FÁSES, Félag áhugafólks um Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, er eitt þessara félaga og hefur félagið þegar skilað inn atkvæðum sínum.
Nú þegar atkvæði hafa borist frá þrjátíu og einu landi af fjörutíu og fjórum skipar Ítalía efsta sætið, Belgía annað sætið og Svíþjóð það þriðja. Ísland er í tuttugasta og fjórða sæti.
Hér má sjá efstu tíu sætin hjá áhugafólkinu:
- Ítalía
2. Belgía
3. Svíþjóð
4. Frakkland
5. Eistland
6. Búlgaría
7. Portúgal
8. Ísrael
9. Makedónía
10. Finnland
Hvað segja veðbankar?
Ef marka má niðurstöður veðbanka verður Ítalía í fyrsta sæti, Búlgaría í öðru sæti og Svíþjóð í því þriðja á úrslitakvöldinu. Spáin um efstu sætin er því að mestu leyti samhljóma áhugafólkinu sem vill þó Belgíu í annað sætið. Samkvæmt þessum lista yrði framlag Íslands í 23. sæti.
Hér má sjá tíu efstu sætin hjá veðbönkum:
- Ítalía
- Búlgaría
- Svíþjóð
- Portúgal
- Belgía
- Armenía
- Ástralía
- Aserbaísjan
- Frakkland
- Rúmenía
Vangaveltur hafa verið um hvaða lönd muni græða á því að Rússland hafi dregið sig úr keppninni. Þau sem hafa fylgst með Eurovision vita vel að nágrannaþjóðir gefa hverri annarri oft fleiri stig en framlögin ættu ef til vill skilið.
Síðustu ár hefur Rússland fengið stóran hluta atkvæða sinna frá löndum fyrrum Sovétríkjanna (Hvíta-Rússlandi, Úkraínu, Georgíu, Aserbaísjan, Ameníu, Moldóvu, Lettlandi, Litháen og Eistlandi) sem og löndum þar sem margir Rússar búa, líkt og Þýskalandi og Ísrael.
Talið er að Búlgaría muni græða einna mest á fjarveru Rússa í ár og líkt og kom fram hér að ofan verður lagið í öðru sæti samkvæmt veðbönkum. Það er hinn sautján ára Kristian Kostov sem flytur framlag landsins, Beautiful Mess.
Kostkov hefur mikla tengingu við Rússland. Hann er fæddur í höfuðborginni Moskvu og er alinn upp þar. Hann tók þátt í The Voice Kids Russia undir leiðsögn Eurovisionstjörnunnar Dima Bilan og skaust við það upp á stjörnuhimininn.
Hvað gerist á fyrra undanúrslitakvöldinu?
Svala stígur á svið í Kænugarði 9. maí og verður framlag Íslands það þrettánda á svið.
Hér má sjá löndin sem taka þátt þetta kvöld:
- Svíþjóð
- Georgía
- Ástralía
- Albanía
- Belgía
- Svartfjallaland
- Finnland
- Aserbaísjan
- Portúgal
- Grikkland
- Pólland
- Moldóva
- Ísland
- Tékkland
- Kýpur
- Armenía
- Slóvenía
- Lettland
Ef marka má veðbanka þá munu Svíþjóð, Armenía, Grikkland, Ástralía, Portúgal, Azerbaídjan, Belgía, Lettland, Moldóva og Kýpur komast upp úr riðlinum og í úrslitin. Svölu er aftur á móti spáð þrettánda sæti.
Hverjir gætu orðið helstu mótherjar Svölu þetta kvöld?
Veðbankar spá því ekki aðeins að Svíþjóð komist upp úr undanriðlinum, heldur er landinu einnig spáð þriðja sæti í úrslitunum, einnig hjá áhugafólkinu. Robin Bengstsson, sem flytur lagið I Can’t Go On, verður því einn af krefjandi mótherjum Svölu þetta kvöld.
Belgía kemst upp úr riðlinum samkvæmt veðbönkum. Þá verður landið í öðru sæti í úrslitakeppninni samkvæmt áhugafólkinu og fimmta sæti samkvæmt veðbönkum. Söngkonan Blance flytur lagið City Lights fyrir hönd landsins og verður einnig verðug samkeppni.
Þá verður framlag Ástralíu í sjöunda sæti í úrslitakeppninni samkvæmt veðbönkum og Aserbaísjan í því áttunda.
Moldóvu er ekki spáð góðu gengi í úrslitakeppninni en mun samkvæmt veðbönkum komast upp undanriðlinum. Maðurinn með svörtu sólgleraugun sem spilar sóló á saxafóninn í atriðinu mun klárlega vekja athygli og það er það sem skiptir máli í Eurovision.
Svala á því nokkra sterka mótherja þetta kvöld og verðum við að vona það besta. Við viljum að sjálfsögðu sjá hana á sviðinu á úrslitakvöldinu.
Hvað segir YouTube?
Ef litið er til fjölda áhorfa á opinbera tónlistarmyndband landsins á YouTube, þ.e. á YouTube-síðu Eurovision gefa þau nokkuð svipaða mynd af stöðunni í efstu sætunum og nefnt hefur verið hér að ofan. Ætla má að fjöldi áhorfanna gefi einhverja vísbendingu um gengi laganna í keppnunum sem framundan eru.
- Ítalía [6,6 millj.]
- Svíþjóð [3,2 millj.]
- Belgía [2,9 millj.]
- Búlgaría [2,2 millj.]
- San Marínó [2 millj.]
- Frakkland 1,9 milljón
- Makedónía [1,9 millj.]
- Serbía [1,7 millj.]
- Ástralía [1,6 millj.]
- Armenía [1,4 millj.]
Framlag Íslands, Paper, er með 449 þúsund áhorf.
Myndböndin eru vissulega til í fleiri útgáfum á YouTube en ákveðið var að miða við þessa í umfjölluninni. Í þessu samhengi er þó ekki hægt að líta framhjá gríðarlega góðum árangri ítalska framlagsins, Occidentali’s Karma. Og auðvitað svörtu, dansandi górillunni í myndbandinu.
Myndbandið var sett inn á YouTube í byrjun febrúar og hefur þegar verið horft oftar en 100 milljón sinnum á það. Ekki hefur verið horft jafnt oft á nokkurt annað lag úr Eurovision á YouTube. Í þeirri útgáfu sem Nútíminn notar í þessari umfjöllun er framlag Ítalíu með 6,6 milljón áhorf. Öll þessi áhorf koma ekki á óvart þar sem bæði áhugafólkið og veðbankarnir spá Ítalíu efsta sæti í keppninni í ár.
Búlgaría verður í öðru sæti samkvæmt veðbönkum og er landið með 2,2 milljón áhorf. Hafi áhugafólkið rétt fyrir sér verður Belgía í öðru sæti, en landið er með 2,9 milljón áhorf.