Manuela Ósk ætlar ekki lengur að vera með opið Snapchat vegna umræðu sem skapaðist um hana í Facebook-hópnum Vonda systir. Umræðan kom til eftir að Manuela tjáði sig um líkamsvöxt raunveruleikastjörnunnar Kim Kardashian á Snapchat. Þetta kemur fram á Vísi.
Í lýsingu hópsins segir að Vonda systir sé staður þar sem tussur og tíkur geti hist, drullað yfir það sem þeim líkar ekki og baktalað leiðinlegt fólk ef svo ber undir. Þá segir einnig að öll skítakomment séu leyfileg. Átján ára aldurstakmark er í hópinn.
Umræðan um Manuelu hófst með innleggi þar sem tveimur skjáskotum af Snapchat-reikningi hennar var deilt og hún sökuð um líkamssmánun (e. body-shaming) og hræsni. Á annarri myndinni segir Manuela að raunveruleikastjarnan sé búin að taka óeðlilegar öfgar of langt, þetta sé ekki hennar náttúrulega form og þess vegna finnist henni stjarnan vera „afmynduð“.
Í færslunni á Vondu systur er vísað til þess að ekki sé langt síðan Manuela tjáði sig um ummæli leikkonunnar Ágústu Evu Erlendsdóttur um mynd sem hún deildi á Instagram. Ágústa Eva hvatti Manuelu til þess að borða en baðst síðan afsökunar á athugasemdinni.
Manuela tjáði sig um málið á Snapchat og sagðist meðal annars ekki skilja hvað fólk sé sé að gera á „þessari viðbjóðslegu síðu“ og vísar þar til Vondu systur.
„Varðandi þessa umræðu sem er í gangi inni á þessari viðbjóðslegu síðu, afskakið ég bara skil ekki hvað fólk er að gera inni á svona síðu. Ég er alls ekki fullkomin og mjög langt frá því að vera fullkomin og segi oft einhverja bölvaða vitleysu. En ég get allavega stolt sagt frá því að ég er ekki inni á einhverri grúppu sem stundar persónuleg niðurrif á aðrar íslenskar konur. Ég er ekki Kim Kardashian, ég er mjög langt frá því. Auðvitað megið þið sem eruð inni á þessari grúppu vera ósammála því sem ég sagði en svona persónuárásir og svona ljót skrif, ég fékk bara nóg og mig langar ekki að vera á Snapchat lengur,“ sagði Manuela á Snapchat. Hún ætlar að halda áfram að nota samfélagsmiðilinn en mun eftir þetta velja hverjir fá að fylgjast með henni.