Norska ríkissjónvarpið (NRK) hóf á mánudagskvöld útsendingu frá ferð rúmlega þúsund hreindýra sem eru að færa sig á milli svæða í Lapplandi af því að sumarið er komið.
Þetta er eitt af mörgum hægvörpum sem fjölmiðlinn hefur boðið upp á. Árið 2009 fylgdust fjölmargir með lest sem fór á milli Osló og Bergen í Noregi og sátu sumir límdir við skjáinn alla sjö klukkutíma sem útsendingin stóð yfir. Hægvarpið með hreindýrunum verður enn rólegra en búist hafði verið við þar sem þau hafa verið treg til að færa sig. Markmið verkefnins er að gera fólki kleift að fylgjast með þessu árlega ferðalagi dýranna.
NRK notar meðal annars dróna svo hægt sé að fylgjast með dýrunum. Þá var tarfurinn Muzet taminn í nokkra mánuði svo hægt væri að hafa myndavél á höfðinu á honum.
Leiðin er um 200 kílómetrar og gert var ráð fyrir að hún tæki sex til níu daga. Hreindýr hvíla sig á sex klukkustunda fresti og leggja sig þá í einn til þrjá klukkutíma. Hægvarpið verður í gangi í viku en verði ferð dýranna ólokið verður því haldið áfram.
Lokaspretturinn er nefnilega rúsínan í pylsuendanum en þá syndir hópurinn yfir fjörðinn Kvaløya.