Auglýsing

Body Shop ætlar framvegis að fara betur yfir þýðingar, verslunin sökuð um klámvæðingu

Íslensk þýðing á nýlegum auglýsingum Body Shop hafa sætt töluverðri gagnrýni á Facebook-síðu verslunarinnar. Þar er fyrirtækið meðal annars sakað um klámvæðingu og að vísa til undirgefni kvenna í kynlífi.

Auglýsingarnar eru hluti af alþjóðlegri auglýsingaherferð Body Shop. Textinn var þýddur yfir á íslensku og auglýsingarnar meðal annars hengdar upp í strætóskýlum og í verslunum fyrirtækisins.

Í annarri auglýsingunni er athygli vakin á maska frá Body Shop og er andlit fyrirsætunnar þakið maskanum. Í ensku útgáfunni er slagorðið „Get your face in the good stuff“ en á íslensku er það aftur á móti „Fáðu hollustuna beint í andlitið“.

Hin auglýsingin sýnir tvær konur í faðmlögum. Í ensku útgáfu auglýsingarinnar er slagorðið „Make love not war with sensitive skin“. Í íslensku útgáfunni segir aftur á móti „Vertu blíð og góð við viðkvæma húð“.

Ein af þeim sem skilur eftir athugsemd um fyrri auglýsinguna á Facebook-síðu Body Shop spyr: „Erum við virkillega orðin svo gegnsýrð af klámvæðingunni að það datt engum í hug betri þýðing en BEINT Í ANDLITIÐ?“

Önnur spyr hver hafi séð um að klámvæða auglýsingarnar tvær og hverjir hafi gefið grænt ljós að þær yrðu birtar. Þá er þeirri spurningu einnig velt fram hvort fyrirtækinu finnist í lagi að vera með auglýsingar sem vísi svona sterkt í klám og undirgefni kvenna sem stundi kynlíf með karlmönnum.

Fátt um svör á Facebook-síðu Body Shop

Færslurnar þar sem auglýsingarnar eru gagnrýndar eru nokkrar og athugasemdirnar við þær enn fleiri. Aftur á móti er fátt um svör hjá Body Shop sem svarar aðeins á tveimur stöðum.

Í fyrra svarinu segir: „Það er nú leiðinlegt að þú skilir lesa svona í þetta, alls ekki ætlunin að vísa í eitthvað slíkt enda ekki í okkar anda að gera lítið úr fólki. Höfum ekki fengið þessi viðbrögð áður við þessari mynd.“ Í hinu svarinu sem birt er frá fyrirtækinu segir: „Takk fyrir ábendinguna, við skoðum málið!“

Í skriflegu svari Odds Péturssonar, eiganda fyrirtækisins á Íslandi, við spurningum Nútímans um málið segir að í þessu felist að betur verði farið yfir þýðingar á auglýsingum frá The Body Shop til að koma í veg fyrir að misskilningur geti skapast.

Nútíminn vildi einnig vita hvort til greina komi að taka auglýsingarnar úr birtingu eða endurskoða þýðinguna á þeim.

„Auglýsingar sem notaðar eru á strætóskýli lifa aðeins í viku og því eru þær þegar farnar úr birtingu fyrir nokkrum dögum og varðandi auglýsingar í glugga þá setjum við nýjar auglýsingar á þriggja til fjögurra vikna fresti og eru nýjar auglýsingar komnar þar einnig,“ segir í svari Odds.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing