Gestir tónlistarhátíðarinnar Fyre Festival héldu að þau myndu lifa lúxuslífi á eyjunni Great Exuma á Bahamas um helgina. Þau sáu sólina og ótal tækifæri til að monta sig á samfélagsmiðlum í hyllingum og hlökkuðu til að hlusta á tónlistarfólk á borð við Major Lazer.
Þegar stjörnur á borð við Kendall Jenner komu fram í auglýsingum fyrir hátíðina gátu þau varla beðið eftir helginni, allt leit þetta mjög vel út.
Þau urðu fyrir miklum vonbrigðum þegar þau mættu til hátíðarinnar á fimmtudag. Á eyjunni biðu þeirra tjöld sem héldu hvorki vatni né vindi, óspennandi samlokur og samanbrjótanlegir tjaldstólar. Skipuleggjendur hátíðarinnar reyndu að róa gestina með fríu áfengi en það gekk illa, þau vildu bara komast sem fyrst aftur til meginlandsins.
Shivi Umar og vinir hennar borguðu 3.500 dollara, eða rúmlega 370 þúsund krónur, fyrir fjögur king size rúm og notalega stofu. Hópurinn sá aldrei þennan lúxus, heldur áttu þau að gista í tjaldbúðum. Í sumum tjaldanna voru rúm, önnur ekki og þau voru alls ekki innréttuð eins og gestunum hafði verið lofað. Sumir gestanna líktu aðstæðunum við flóttamannabúðir.
Staðurinn var langt í frá eins og lofað hafði verið
This sums up Fyre Festival. #fyre #fyrefestival #fyrefest pic.twitter.com/x4xcFBL8Yg
— William Needham Finley IV(It’s real. I made it up) (@WNFIV) April 28, 2017
„Fólk var að stela rúmum úr öðrum tjöldum. Þetta var bara ringulreið,“ sagði Kumar í samtali við The New York Times. Enginn kom til að skrá þátttakendur inn svo skipuleggjendur hátíðarinnar höfðu ekki hugmynd um hverjir voru þarna og hverjir ekki. „Það voru engir lásar á tjöldunum, rúmin voru rök og teppin rennandi blaut,“ segir Kumar sem náði ekki að sofa mikið um nóttina.
Maturinn stóð heldur ekki undir væntingum
The dinner that @fyrefestival promised us was catered by Steven Starr is literally bread, cheese, and salad with dressing. #fyrefestival pic.twitter.com/I8d0UlSNbd
— Trevor DeHaas (@trev4president) April 28, 2017
Daginn eftir tókst Kumar og vinum hennar að fá herbergi á hóteli eftir að hafa húkkað far með íbúa eyjunnar. Sama dag var hátíðinni frestað um viku en í tilkynningu frá skipuleggjendum hátíðarinnar, rapparanum Ja Rule og Billy McFarland, sagði að markmiðið hefði verið að gestir hátíðarinnar fengu tónlistarupplifun sem þau myndu aldrei gleyma.
Aðstæður hefðu aftur á móti farið úr böndunum, ekki hafi verið búið að undirbúa allt við komu festanna og því hafi skipuleggjendur ekki náð að standa undir væntingum gestanna.
McFarland, sem er 25 ára gamall, sagði í samtali við fjölmiðla að föstudagurinn hefði verið erfiðasti dagur lífs hans. Hann segir að skipulagning og undirbúningur hátíðarinnar hafi verið mun meira krefjandi en þeir gerðu ráð fyrir og viðurkennir að þeir hafi gert mistök. Þá hafi þeir gert ráð fyrir mun færra starfsfólki en þeir raunverulega þurftu.