Auglýsing

Telja að Svala gæti fallið í skuggann af epíska saxafónleikaranum í undankeppninni

Epíski saxafónleikarinn Sergey Stepanov, sem sló í gegn í Eurovision árið 2010, gæti haft töluverð áhrif á gengi Íslands í keppninni í ár. Hann snýr aftur fyrir hönd Moldavíu með hópnum Sunstroke Project og er að sjálfsögðu með saxafónsóló í laginu Hey Mamma.

Rifjum aðeins upp frammistöðu epíska saxafónleikarans

Moldavía stígur á svið á undan Svölu Björgvinsdóttur sem er þrettánda í röðinni á fyrra undanúrslitakvöldinu 9. maí. Í bloggi á síðunni Wiwibloggs segir að hugsanlega geti fjörug og lífleg frammistaða þeirra varpað skugga á atriði Íslands.

Samkvæmt myndbandi frá fyrstu æfingu Moldavíu eru þrjár bakraddasöngkonur sýnilegar á sviðinu. Þær eru allar klæddar í hvíta kjóla og bera stóra, svarta hatta. Þá má sjá að nokkuð er lagt upp úr hlutverki saxafónleikarans á sviðinu. Lagið er hresst og það er greinilega fjör á sviðinu. Þetta er atriði sem tekið verður eftir. Ef marka má veðbanka mun Moldavía komast í úrslitin og lenda þar í 27. sæti.

Hér má sjá myndband frá fyrstu æfingu Moldavíu

Í umfjöllun Wiwibloggs er búningi Svölu á fyrstu æfingunni á sviðinu í Kænugarði hrósað. Blaðamaðurinn er ánægður með Svölu að sýna á sér kvenlegri hliðar en á sviðinu í Laugardalshöll þegar lagið Paper fór með sigur af hólmi. Þess má reyndar geta Svala verður aðeins með skikkjuna hvítu í keppninni, hin fötin voru ekki hluti af búningnum.

Blaðamaðurinn segir einnig að atriðið hafi tekið framförum á síðustu mánuðum og Svala kunni greinilega að koma fram á sviði. Hann segir einnig að jafnframt þó að framlag Svölu lofi góðu muni það líklega falla í skuggann af kröftugu og líflegu framlagi Moldavíu. Gengur hann svo langt að segja að Paper sé veikburða og hægfara þegar það fylgi í kjölfar Hey Mamma.

Epíski saxafónleikarinn er reyndar þegar farinn að stela sviðsljósinu af Svölu. Það gerði hann í gær þegar blaðamannafundur Íslands fór fram og Svala var að svara spurningum. Saxafónsólóið yfirgnæfði Svölu og við vonum svo sannarlega að það verði ekki raunin í undankeppninni eftir viku.

Epíski saxafónleikarinn tekur yfir þegar 2 mínútur og 35 sekúndur eru liðnar af myndskeiðinu

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing