Þegar ísraelski hönnuðurinn Eugene Romanovsky ákvað að selja bílinn sinn var ekki nóg fyrir hann að birta ómerkilega auglýsingu á internetinu. Hann setti saman ótrúlegt myndband sem sýnir bílinn, Suzuki Vitara árgerð 1996, í mögnuðum aðstæðum. Horfðu á myndbandið hér fyrir neðan.
Eugene vann að myndbandinu í frítíma sínum og kom bílnum fyrir í kvikmyndum á borð við Jurassic Park og Mad Max: Fury Road. Áhorfin á auglýsinguna er að skríða í fjórar milljónir.
Myndbandið fór í loftið í apríl og bíllinn er seldur. Eugene segir hins vegar í samtali við fjölmiðla í heimalandi sínu að kaupandinn hafi ekki séð auglýsinguna heldur fallið fyrir honum þegar hann sá hann með eigin augum.