Auglýsing

Portúgal stökk upp um þrjú sæti hjá veðbönkum: Glímir við alvarleg veikindi, fékk aðeins leyfi til að koma í viku

Salvador Sobral, flytjandi framlags Portúgal í Eurovision í ár, var ekki viss um að hann fengi leyfi frá læknum sínum til að ferðast til Kænugarðs í Úkraínu og taka þátt í keppninni. Hann fékk loksins grænt ljós að ákveðnum skilyrðum uppfylltum en Sobral dvelur til dæmis mun skemur en hinir keppendurnir í landinu, aðeins eina viku.

Sobral á nefnilega við heilsufarsvandamál að stríða. Hann er sagður vera á biðlista eftir nýju hjarta og hefur einnig komið fram að ástandið sé svo alvarlegt að Sobral þurfi hjartað áður en árið rennur sitt skeið. Vegna þessa kom hann seinna en aðrir keppendur til Kænugarðs og steig ekki sjálfur á svið á æfingum fyrir keppnina. Systir hans, Luísa Sobral, samdi bæði lagið og textann og stóð sig vel þegar hún hljóp í skarð bróður síns á æfingum.

Í ljósi þess að vitað var að söngvarinn gæti ekki tekið þátt í æfingunum var ákveðið að hafa atriðið einfalt, þannig að hann gæti mætt á staðinn og flutt það án erfiðleika. Þá er einnig hugsanlegt að söngvarinn ráði einfaldlega ekki við að hreyfa sig mikið og hratt um sviðið. Gísli Marteinn Baldursson, sem lýsir keppninni, sagði á þriðjudagskvöld að Sobral klæddist víðum fötum á sviðinu til að fela umbúðir sem hann er með um sig miðjan.

Rifjum upp þegar Sobral heillaði Evrópu upp úr skónum á þriðjudagskvöld

Atriðið lætur ekki mikið yfir sér. Svartklæddur söngvari sem stendur kyrr á sviðinu og syngur rólega ballöðu við undirleik píanós og strengjahljóðfæra. Engar bakraddir, engir dansarar, engin vindvél, engin óvænt sprengja.

Samt náði hann til áhorfenda, kom Portúgal upp úr undanriðlinum og í úrslitin á laugardaginn. Ekki nóg með það, þá tók hann stökk hjá veðbönkum eftir keppnina á þriðjudaginn og er nú spáð öðru sæti en ekki því fimmta. Einlægnin og einfaldleikinn virðist hafa náð til margra.

Portúgal hefur tekið þátt í keppninni frá árinu 1964. Besti árangur þeirra hingað til var sjötta sæti árið 1996. Töluverðar líkur eru á því að það breytist í ár. Sjáum hvað setur á laugardaginn!

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing