Misskilningur á réttarreglum olli því að Manuela Ósk Harðardóttir flutti til Los Angeles í Bandaríkjunum með börn sín þrátt fyirr andstöðu feðra þeirra. Börnin hafa verið í stöðugum samskiptum við feður sína eftir að þau fluttu í haust og Manuela hefur ekkert gert til þess að draga úr eða tálma með öðrum hætti að feðurnir geti átt í góðum samskiptum við börnin sín.
Þetta kemur fram í yfirlýsingum sem lögmaður Manuelu sendi frá sér fyrir hönd hennar en fram kom í fjölmiðlum í dag að hún hefði flutt með börnin úr landi án samþykkis feðra þeirra.
Sjá einnig: Manuela Ósk flutti með börnin úr landi án samþykkis feðra þeirra
Í yfirlýsingunni segir að börn Manuelu hafi búið hjá henni frá fæðingu og haft þar lögheimili. Feður barnanna hafa haft umgengnisrétt við börnin. Árið 2016 bauðst henni skólavist í Los Angeles sem hún þáði. Barnsfeður hennar voru upplýstir um þetta og gerðu til að byrja með engar athugasemdir.
„Þegar fór að styttast í að námið hæfist og búið var að gera ráðstafanir þess efnis komu fram athugasemdir frá barnsfeðrum Manuelu og lögðust þeir gegn því að hún myndi sækja sér nám utan landssteinanna. Þessar athugasemdir komu Manuelu nokkuð á óvart, sér í lagi hvað varðar Grétar Rafn Steinsson, þar sem hann er ekki búsettur á Íslanndi og hefur ekki haft mikil afskipti af uppeldinu eða sinnt reglulegri umgegni frá því að samvistum hans og Manuelu lauk þegar dóttir þeirra var tíu vikna gömul,“ segir í yfirlýsingunni.
Þá segir að misskilningur á réttarreglum hafi orðið til þess að hún flutti út með börn sín, þrátt fyrir andstöðu feðranna. Í fyrirtöku hjá dómstól í Los Angeles 9. maí samþykkti Manuela að mistök hefðu verið gert og sagðist vera tilbúin til að fara heim til Íslands með börnin samstundis til að greiða mætti úr málinu. Þetta var gert eftir að börnin voru sótt í skólann með lögregluvaldi. Eftir að börnin komu til Íslands í gær voru þau flutt aftur í umsjá Manuelu.
Í yfirlýsingunni kemur einnig fram að ekkert mál sé í gangi hjá opinberum aðilum hvað þetta mál varðar, hvorki hjá stjórnvöldum né dómstólum.