Auglýsing

Lögregla rannsakar hvort eitrað hafi verið fyrir Robert Spencer á veitingastað í Reykjavík

Rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu kannar hvort eitrað hafi verið fyrir Robert Spencer á veitingastað í Reykjavík fimmtudagskvöldið 11. maí. Sama kvöld hélt Spencer fyrirlestur um þá ógn sem hann telur að stafi af íslam.

Guðmundur Pétur Guðmundsson hjá rannsóknardeildinni staðfestir í samtali við Nútímann að málið sé til rannsóknar. RÚV greinir frá því að Spencer hafi sagt frá meintri eitrun á vefsíðunni frontpagemag.com en þar rekur hann atburði kvöldsins. Guðmundur segir málið hafi komið inn á borð rannsóknardeildar í gær. Það var upphaflega tilkynnt til lögreglu sama kvöld og Spencer telur að eitrað hafi verið fyrir honum.

Málið er á frumstigi og er lögregla að afla gagna. Meðal annars hefur verið óskað eftir myndbandsupptöku frá veitingastaðnum. Sem stendur er enginn með réttarstöðu grunaðs manns. Aðspurður vill Guðmundur ekki segja frá því um hvaða veitingastað er að ræða.

Sjálfur segir Spencer að hann hafi farið út að borða eftir að hafa haldið fyrirlesturinn, líkt og kemur fram í frétt RÚV. Með í för voru skipuleggjendur fundarins og annar ræðumaður. Einhverjir gestanna á veitingastaðnum þekktu hann og tóku tveir í hönd hans. Annar sagðist vera aðdáandi hans og hinn sagði: „Fuck you“.

Í kjölfarið ákvað hópurinn að yfirgefa veitingastaðinn. Um fimmtán mínútum síðar, þegar Spencer var kominn á hótelherbergi sitt var honum farið að líða illa. Hann var dofinn í andliti, höndum og fótum, hann skalf og kastaði upp. Hann fór á sjúkrahús og var þar um nóttina.

Spencer fullyrðir að í ljós hafi komið og það hafi verið staðfest með rannsókn á spítalanum að annar mannanna tveggja sem heilsuðu honum hafi sett eitthvað í drykk hans. Sjálfum fannst Spencer líklegra að það hafi verið sá fyrri. Hann segist hafa verið veikur í nokkra daga en tilkynnt málið til lögreglu.

Spenver segir að tekist hafi að bera kennsl á manninn og á Facebook-síðu mannsins hafi ekkert komið fram sem benti til þess að hann væri í raun aðdáandi Spencers. Sjálfur segir Spencer að um ungan vinstrimann hafi verið að ræða.

Guðmundur segir að enginn sé grunaður í málinu og umrædd rannsókn á Facebook-síðu mannsins sé á vegum Spencers, ekki lögreglunnar.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing