Það er mjög mikilvægt að skoða verðmiðann vel í Costco ef gera á góð kaup í versluninni. Verðin geta breyst frá degi til dags, frá viku til viku og tegundin sem var hagstæðast að kaupa í síðasta mánuði gæti verið orðin dýrari núna.
Sjá einnig: Kostuleg saga manns sem er ekki í Costco-röðinni: „Kona í gervipels að reyna að ryðjast aftast í röðina“
Hagsýna húsmóðirin Melea Johnson hefur birt tvö myndbönd á YouTube þar sem hún fer yfir það sem ætti að kaupa og það sem ætti alls ekki að kaupa í Costco. Hafa ber í huga að hún tekur myndböndin upp í einni af verslunum fyrirtækisins í Bandaríkjunum og gæti eitthvað verið öðruvísi í versluninni sem verður opnuð í Kauptúni í fyrramálið.
Á verðmiðanum er oft að finna nánari upplýsingar, líkt og hvað eitt kíló af vörunni kostar, eða eitt stykki. Í Costco eru matvæli oft seld í stórum umbúðum og í miklu magni. Þetta er mikilvægt að hafa í huga og er Johnson alltaf með reiknivélina á lofti þegar hún gengur um Costco til að komast að því hvort magnkaupin séu í raun og veru hagstæð.
1. Aldrei kaupa gosdrykki í Costco
Johnson segir að viðskiptavinir sem kaupi gos í versluninni borgi of mikið fyrir það í hvert einasta skipti. Hún bendir líka á að mikilvægt sé að skoða stærðirnar á gosdrykkjunum og orkudrykkjunum. Það sem getur hljómað mjög hagstætt er það kannski alls ekki.
2. Leikföngin geta verið mun ódýrari í Costco
Johnson tekur nokkur dæmi um leikföng sem eru til sölu í búðinni og í öllum tilvikum eru þau heldur dýrari á Amazon. Hún hvetur viðskiptavini til að gera slíkt hið sama og bera verðið á leikföngunum saman við aðrar búðir.
3. Skoðaðu vel verðið á bleyjum áður en þú kaupir þær
Það er ekki gott að verða uppiskroppa með bleyjur ef það er ungt barn á heimilinu. Hvað er þá betra en að kaupa stóran kassa með mörgum bleyjum í Costco og eiga nóg í langan tíma? Johnson bendir á að það geti verið mjög sniðugt að kaupa bleyjur í Costco, sérstaklega gerðina frá Kirkland. Mundu samt að það sem var ódýrara í síðustu viku er það ekki endilega núna.
4. Sjónvörpin eru stundum á mjög góðu verði
Sjálf hefur Johnson keypt tvö sjónvörp í Costco á góðu verði. Hún bendir viðskiptavinum á að fylgjast vel með verðunum þegar nær dregur Black Friday, eða svörtum föstudegi og jólunum en þá eru verðin gjarnan lækkuð. Í ár er svartur föstudagur 24. nóvember.
5. Kauptu rafhlöðurnar í Costco
Johnson segir að hægt sé að gera mjög góð kaup á rafhlöðum. Hún bendir á að jafnvel þó að Costco selji rafhlöður undir merkinu Kirkland og það sé ekki endilega gerðin sem fólk er vant að nota séu rafhlöðurnar líklega hannaðar og framleiddar af sömu aðilum og framleiða rafhlöður á borð við Duracell. Því sé um að gera að nýta sér lága verðið.