Mamma Borghildar Dóru Björnsdóttur hitti pabba hennar bara einu sinni, á útihátíð um verslunarmannahelgina 1983 í Atlavík. Borghildur kom undir þá helgi en hvorki hún né mamma hennar hafa hitt pabba hennar eftir þetta. Borghildur vill finna pabba sinn og hefur óskað eftir aðstoð á Facebook. Þetta kemur fram á Vísi.
Uppfært kl. 23.20 mánudaginn 29. maí: Hér má sjá nýrri frétt um málið með fleiri upplýsingum. Í henni eru jafnframt leiðréttingar á upplýsingum sem komu fram í frétt Vísis.
Kvöldið sem Borghildur kom undir sagði pabbi hennar mömmu henni að hann héti Jónas Haukur Sveinsson en núna telur Borghildur að hann hafi jafnvel logið til um nafn sitt.
Mamma Borghildar segir að maðurinn hafi verið hávaxinn og stuttklipptur, klæddur í svarta Adidas-skó, bláar gallabuxur og ljósgráa lopapeysu með svörtu og hvítu mynstri. Hann var á útihátíðinni með vini sínum sem var dökkhærður, hrokkinhærður og þybbinn. Saman voru þeir á silfurgrárri Mözdu með bílnúmerinu R 323 og gistu í grænu tjaldi. Maðurinn, sem sagðist heita Jónas Haukur, sagðist vera smiður og búa hjá foreldrum sínum í Reykjavík. Þá sagðist hann eiga fimm ára dóttur, Huldu og sagðist einu sinni hafa verið giftur.
Vinkona mömmu Borghildar hitti manninn á Akureyri sex árum eftir útihátíðina og svaraði hann þegar hún kallaði hann Hauk. Hún sagði honum að hann ætti sex ára dóttur, Borghildi.
Í frétt Vísis kemur fram að eftir að Borghildur óskaði eftir upplýsingum um málið á miðvikudag hafi hún fengi margar ábendingar um einn mann. Langt er þó síðan hann gekkst undir faðernispróf og er hann ekki pabbi Borghildar. Hún er ekki búin að finna pabba sinn og óskar enn eftir upplýsingum.