Borghildur Dóra Björnsdóttir, 33 ára kona sem kom undir á útihátíð í Atlavík um verslunarmannahelgina árið 1983, fékk fjölmargar ábendingar eftir að hún óskaði eftir aðstoð við að finna blóðföður sinn á Facebook í síðustu viku. Því miður hafa engar þeirra komið að gagni enn sem komið er og þiggur Dóra því enn allar þær upplýsingar sem fólk kann að hafa um málið.
Förum aðeins yfir það sem Borghildur veit um blóðföður sinn:
Hann var á útihátíð í Atlavík um verslunarmannahelgina 1983 og sagðist vera 26 ára. Mamma Dóru telur mögulegt að hann hafi jafnvel verið nokkuð yngri.
Þangað mætti hann með vini sínum á grárri, skítugri Mözdu af tegundinni 323. Bílnúmerið byrjaði á R sem stóð á þessum tíma fyrir Reykjavík.
Hann sagðist heita Jónas Haukur Sveinsson en Dóra telur víst að hann hafi að hluta til eða öllu leyti logið til um nafn sitt. Hann sagðist vera smiður og búa hjá foreldrum sínum í Reykjavík. Hann sagðist eiga fimm ára dóttur, Huldu og sagðist einu sinni hafa verið giftur.
Hann var hávaxinn og stuttklipptur, í svörtum Adidas-skóm, bláum gallabuxum og ljósgrárri lopapeysu með svörtu og hvítu mynstri. Vinur hans var dökkhærður, hrokkinhærður og þybbinn.
Vinkona mömmu Dóru hitti manninn fyrir tilviljun á skemmtistað á Akureyri þegar Dóra var sex ára og spjallaði við hann. Þá sagðist hann alltaf hafa búið á Akureyri en Dóra efast um að það sé rétt, þar sem enginn Akureyringur sem hún þekkir kannist við hann. Við þetta tilefni sagði vinkonan manninum að hann ætti dóttur, Dóru, en þá var einmitt kallað á hann og hann hvarf í mannfjöldann. Maðurinn var kallaður Haukur og svaraði því nafni.
Mamma Dóru segir að maðurinn hafi ekki verið með hring þegar þau kynntust. Hefði hann verið með einn slíkan hefði hún aldrei sofið hjá honum. Mamma hennar telur jafnvel að hann hafi logið til um nafn sitt og fleira svo hann þyrfti ekki að borga meðlag, ef til þess kæmi. Dóra segir að mamma hennar hafi tekið skýrt fram við hana að hún muni ekki rukka hann um meðlag, gefi hann sig fram og gangist við því að vera pabbi Dóru.
Mamma Dóru var alltaf kölluð Dæda og kynnti sig þannig við blóðföður Dóru þegar þau hittust í Atlavík 1983.
Segir að það eigi ekki að bitna á barninu ef foreldrið hélt framhjá
Margir sendu Dóru link á prófíla á Facebook hjá mönnum sem líkjast henni og einnig hjá manni sem heitir Haukur Sveinsson. Hún er enn að fara í gegnum upplýsingarnar en getur þó útilokað Hauk, hann sé þegar búinn að fara í faðernispróf og það hafi verið neikvætt.
Í fréttum sem birtar voru um málið um helgina kom fram að númer bílsins sem blóðfaðir hennar og vinur hans voru á hefði verið R-323 en Dóra vill gjarnan leiðrétta þann misskilning. Um var að ræða gráa, skítuga Mözdu af tegundinni 323 en með bílnúmer sem byrjaði á R, eða fyrir Reykjavík. Meðal ábendinganna sem Dóra fékk var listi yfir alla eigendur bílsins R-323 en það kemur ekki að miklu gagni þar sem hún veit ekki hvort það er rétta númerið. Númerið gæti vissulega verið R-323 en þar sem platan var óhrein sá mamma Dóru ekki allt númerið.
Þá sendi einn maður henni vinabeiðni á Facebook og bauð henni að skoða albúm með myndum sem hann átti frá útihátiðinni en þær komu því miður heldur ekki að gagni. Dóra er því á vissan hátt enn á byrjunarreit, ekki nema blóðfaðir hennar eða einhver sem þekkir hann hafi séð umfjöllunina og viti nú af henni.
Dóra segist ekki telja miklar líkur á því að maðurinn gefi sig fram eða vilji það. „Sérstaklega ef að hann var að halda framhjá þegar þetta gerðist. En það á ekki að bitna á barninu ef foreldri heldur framhjá,“ segir hún. Dóra segir málið ekki snúast um að hún vilji sundra fjölskyldu eða fjölskyldum og hún skilji vel ef það gæti orðið áfall fyrir einhvern eða einhverja að átta sig á því að skyndilega sé komin til sögunnar kona, dóttir sem aldrei var til. Hún tekur fram að þetta sé jafnframt erfitt fyrir hana.
„Mig langar bara, eins og örugglega öllum sem þekkja ekki til foreldra sinna eða foreldris, að finna hinn helminginn af mér. Sjá hvernig hann lítur út, vita hvort ég eigi systkini eða fleiri að í föðurfjölskyldunni og náttúrulega allra mest hvort hann vilji eitthvað með mig hafa,“ segir Dóra.
Hún segist telja að hún sé pottþétt að skemma eitthvað fyrir honum með því að fjalla um leitina á opinberum vettvangi. Leit hennar hingað til hafi ekki skilað árangri og því hafi hún ákveðið að grípa til þessa ráðs. Dóra segir að það hafi verið virkilega erfitt að vita ekkert um hann eða hans fjölskyldu í öll þessi ár. Stundum hafi hún viljað hætta að velta þessu fyrir sér en spurningin, „Hvað ef?“, hafi alltaf nagað hana.
Dóra hefur ekki gefið upp vonina og segist enn vera jákvæð um að finna blóðföður sinn. Hún hvetur þau sem kunna að hafa upplýsingar sem gætu komið að gagni, hversu ómerkilegar sem þær kunna að virðast, að hafa samband við sig. Hún hvetur blóðföður sinn jafnframt til að hafa samband og bendir honum á að hann geti til dæmis sent henni skilaboð í gegnum Facebook.