Kleppur er meðferðarheimili fyrir fyrirtæki sem þurfa markaðstengda aðstoð. Þetta kemur fram á vef auglýsingastofunnar Klepps sem var stofnuð í fyrra. Magnús Bergsson, annar eiganda stofunnar, segir í samtali við Nútímann að Landspítalinn hafi nafninu fagnandi og vilji gjarnan fá jákvæðari tengingu við orðið Kleppur.
Við vildum taka það og gera það jákvætt. Við erum ekkert að gera grín að þessu.
Landspítalinn rekur réttargeðdeildina að Kleppi. Um er að ræða sérhæfða geðdeild sem sinnir því hlutverki að meðhöndla ósakhæfa geðsjúka einstaklinga og endurhæfa þá aftur út í samfélagið. Margir hafa gagnrýnt nafn auglýsingastofunnar og framsetninguna á heimasíðunni á samfélagsmiðlum síðasta sólarhringinn.
Auglýsingastofan Kleppur var stofnuð fyrir tæpu ári og hefur verið nóg að gera að sögn Magnúsar. Áður en farið var af stað höfðu eigendurnir samband við Landspítalann og fengu leyfi til að nota nafnið.
„Við vildum ekki gera þetta í óþökk þeirra. Hugmyndin var sú að við vildum hjálpa fyrirtækjum sem þurfa á aðstoð að halda. Kleppur er regnhlífasamtök fyrir nokkur fyrirtæki, við erum ekki venjuleg auglýsingastofa heldur byrjum á hinum endanum með ráðgjöf tengdri markaðsmálum,“ segir Magnús.