Fyrirtækið Blush.is, sem selur meðal annars hjálpartæki ástarlífsins, ætlar að gefa landsmönnum 50 þúsund smokka. Markmiðið er að minnka smit á kynsjúkdómum og koma í veg fyrir ótímabærar þunganir en með gjöfinni rætist draumur Gerðar Huldar Arinbjarnardóttur, eiganda fyrirtækisins.
Sagt er frá framtakinu á Facebook-síðu Blush.is. Þar segir að frá upphafi hafi það verið Gerði mikið hjartans mál að geta gefið fría smokka því hún trúi því að allir eigi að geta nálgast fría smokka til að stunda öruggt kynlíf.
„Það er ekki bara frábært fyrir einstaklinga, heldur líka fyrir heilbrigðiskerfið okkar þar sem hægt er að spara gríðarlega mikinn pening með fækkun fóstureyðinga og kynsjúkdómasmita,“ segir í færslunni.
Þá kemur einnig fram að smokkapakki með 12 smokkum kosti um 1.500 til 1.800 krónur og því sé gjöf Blush.is til landsmanna um sjö milljóna króna virði. Þau sem vilja geta sótt smokka sér að kostnaðarlausu til Blush.is í Hamraborg 5 í Kópavogi og er sendingin þegar komin þangað.