Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, segist miður sín vegn máls Roberts Downey, sem hét áður Róbert Árni Hreiðarsson. Þetta kemur fram á Vísi. Robert endurheimti lögmannsréttindi sín eftir að forseti veitti honum uppreist æru.
Robert var dæmdur árið 2008 fyrir að brjóta kynferðislega gegn fjórum stúlkum á aldrinum 14 til 15 ára. Í dómi Héraðsdómi Reykjavíkur kom fram að brot Róbert voru ítrekuð og að hann hafi nýtt sér yfirburðastöðu sína í krafti aldurs síns. Allar stúlkurnar áttu við andlega og félagslega erfiðleika að stríða og sjálfsmynd þeirra því afar brotthætt. Þetta vissi Róbert.
Við húsleit lögreglu vegna rannsóknar málsins fannst bók með 44 blöðum. Á fyrstu 32 síðunum voru skrifuð 335 kvenmannsnöfn með ýmist eða bæði símanúmer eða netpóstföng. Athygli vakti að við mörg nafnanna voru skráðar tölur sem ætla mátti að vísuðu til aldurs stúlknanna.
Þótt talað sé um að forseti veiti uppreist æru, fer dómsmálaráðuneytið með slík mál. Er það í samræmi við almennar reglur um að forseti láti ráðherra framkvæma vald sitt.
Guðni segir málið ömurlegt. „Samúð mín er auðvitað öll hjá þeim sem þessi brotamaður braut á,“ segir hann á Vísi.
Að þurfa að þola þessa upprifjun núna. Ég er bara eins og aðrir Íslendingar, held ég, að þegar kynferðisafbrot eru annars vegar þá vill maður helst að brotamaðurinn sé læstur inni og lyklinum hent. En við búum líka í réttarríki og leyfðu mér að ítreka þetta – ákvörðunin er ekki tekin hérna.
Þá bendir Guðni á að fólk þurfi að beina beiðni um rökstuðning til ráðuneytis. Hann segir umræðuna um málið ekki hafa komið sér á óvart. „Mínum óþægindum út af þessu verður aldrei jafnað saman við það sem aðrir hafa þurft að þola í þessu máli,“ segir hann á Vísi.
„Ég bið fólk að sýna því skilning hvernig málsmeðferðin er þegar menn sem hlotið hafa dóm og afplánað hann og sækja um uppreist æru. Ég bið bara um sanngirni í því en ég bið fólk ekki um að vorkenna mér.“