Bandaríski leikarinn Rainn Wilson, best þekktur sem Dwight úr sjónvarpsþáttunum The Office, flytur erindi um andleg rit, sögu og lífssýn Bahá’í trúarinnar á fyrirlestri sem gengur undir yfirskriftinni „Bahá’u’lláh, andlegur byltingarmaður“ á sunnudaginn.
Eins og Nútíminn greindi frá í vikunni er Rainn staddur hér á landi ásamt eiginkonu sinni. Hann kom einnig til landsins síðasta sumar og sá meðal annars Ísland vinna England á N1 Bíldshöfða.
Í samtali við Nútímann segir Eðvarð T. Jónsson, fjölmiðlafulltrúi trúfélagsins, að leikarinn hafi alla tíð verið virkur í trúfélagi Bahá’í en hann hefur áður flutt erindi hér á landi m.a. í sumarskóla Bahá’í á Reykhólum sem fram fór fyrr í sumar. Einnig hefur leikarinn boðað trúnna í hinum ýmsu viðtölum erlendis, þar á meðal í þáttum Ophru Winfrey.
Trúin gengur út á einingu mannkyns og trúarbragða. Öll trúarbrögð eru af sömu rót og koma frá einum guði. Samkvæmt trúnni er ekki rétt að til séu margir guðir enda boðar trúin sættir trúarbragðanna og skapar nýja siðmenningu. Samkvæmt trúnni eru ákveðin skilyrði fyrir friði í heiminum – þar á meðal samræmi milli vísinda og trúar, allsherjarskyldumenntun og sjálfstæð leit að sannleikanum.
Rainn boðaði komu sína á fyrirlesturinn á Twitter í vikunni. Og hvatti Ólaf Darra til að mæta!
Icelandic Pals: I will be speaking @ Reykjavik Baha'i Center @5PM Sunday. "Baha'u'llah, Spiritual Revolutionary" Come on down! @OlafurDarri
— RainnWilson (@rainnwilson) June 21, 2017
Undir tístinu má sjá tíst frá Ólafi sem hlakkar til að hlusta á boðskap Bahá’í trúarinnar.
Tæplega 400 manns eru skráðir í trúfélagið á Íslandi og er von á góðri mætingu. Fyrirlesturinn hefst klukkan 17 að Kletthálsi 1 og eru allir hjartanlega velkomnir.