Auglýsing

Magnea sakar Mörtu Maríu um að leika sig grátt: „Ófagmannleg æsifréttamennska af verstu sort“

Magnea Björg Jónsdóttir var á allra vörum á mánudag þegar grein undir fyrirsögninni: „Ef þú ert sæt færðu allt frítt“ birtist á mbl.is. Magnea gagnrýnir framsetningu viðtalsins og sakar blaðamenn Smartlands á mbl.is um æsifréttamennsku.

Búið er að breyta fyrirsögn viðtalsins í: „Innsýn í skemmtanalífið í LA“. Magnea viðurkennir að hafa verið hispurslaus í viðtalinu en segir að fyrirsögnin sem varð fyrir valinu sé látin hljóma eins og hún sé höfð eftir henni orðrétt. „Sem er langt frá því að vera rétt,“ segir hún í samtali við Nútímann.

Ég tel að drifkrafturinn á bakvið fyrirsögnina, og aðrar breytingar á framsetningu orða minna í greininni, hafi fyrst og fremst verið til að gera greinina að einhverju clickbait, sem snýst um að hafa fyrirsögnina nógu sjokkerandi til þess að fá lesendur til að lesa og deila greininni og þannig fá meiri veftraffík á miðilinn.

Magnea segir að framsetning greinarinnar láti hana líta illa út. „Forsvarsmenn Smartlands sýndu enga iðrun hvað það varðar,“ segir hún.

„Þau hafa séð sér leik á borði og ekki borið neina virðingu fyrir raunverulegu innihaldi viðtalsins. Þetta er ófagmannleg æsifréttamennska af verstu sort og mun alltaf vera á kostnað þeirra sem um er fjallað.“

Hún segir að viðbrögðin við greininni hafi verið nákvæmlega eins og Smartland hafi ætlað sér. „Fólk hneykslaðist og ég varð að aðhlátursefni. En það fór fljótt að renna á fólk tvær grímur því þeir sem þekkja mig sáu að greinin var ekki í samræmi við það sem ég myndi láta hafa eftir mér,“ segir hún.

„Ég er mjög opin og beinskeytt manneskja og ég fegra engar staðreyndir. En það er deginum ljósara að framsetningin á greininni er unnin til að snúa orðum mínum, og minni persónu, úr tengslum við raunveruleikann.“

Magnea sendi Mörtu Maríu skilaboð og óskaði eftir því að greinin yrði tekin úr birtingu. „Ég nálgaðist hana á þeim forsendum að ég væri alveg miður mín með framsetningu greinarinnar og bað hana vinsamlega að virða óskir mínar og taka greinina niður,“ segir hún.

„Mér var mætt með skætingi og dónaskap. Eina svarið sem ég fékk var það að prófarkalestri var kennt um breytingarnar sem höfðu orðið á greininni frá því að ég samþykkti hana. Ég bað um skriflega skilmála þeirra hjá Smartlandi sem útlista þá reglu að ekki megi taka greinina úr birtingu, sem og nafn hjá yfirmanni hennar. Hún varð ekki við því og hefur ekki svarað mér.“

Magnea viðraði óánægju sína á samfélagsmiðlum og sakaði Smartland um að leika sig grátt. Hún segist hafa fengið fjölmörg skilaboð frá fólki sem hafði svipaða sögu að segja. „Þau virðast stunda ærumeiðingar reglulega og mér finnst út í hött að eitt elsta og mest lesna dagblað Íslands láti þetta líðast,“ segir hún.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing