Pistill Snæbjörns Ragnarssonar, bassaleikara Skálmaldar, undir fyrirsögninni: „Ég er ekki femínisti“ hefur vakið mikla athygli í dag. Pistillinn birtist á Stundinni en þar segist Snæbjörn vera jafnréttissinni, ekki femínisti, vegna þess að hann getur ekki fallist á skilyrðin sem hann segir sjálfskipaða forsprakka femínismans setja honum.
„Ég er maðurinn sem er alinn upp af báðum foreldrum, á eina systur og einn bróður, konu sem hefur alið mér dóttur og bráðum son og ég vil öllum sömu möguleika,“ segir hann.
„En vegna þess að ég fellst ekki á að eðlilegt geti talist að reyna að fiska allt úr umræðunni sem gæti hallað á konur og blása það upp sem gróft ofbeldi gegn þeim neitar þessi elíta mér um að nota titilinn. Við erum ekki öll að veiða konur í gildrur. Við erum stundum bara að tala saman. Við þurfum að halda jafnréttisbaráttunni áfram því við erum ekki komin í land. En femínistar sem halda því fram að ég sé ekki femínisti og að kalla mig ljótum nöfnum vegna þess að ég hugsa ekki nákvæmlega eins og þau eru að skemma fyrir. Við erum í sama helvítis liðinu!“
Helga Ragnarsdóttir, systir Snæbjörns, hefur skrifað opið bréf til bróður síns og birt á Facebook. „Ég skal byrja á því að segja þér að þú ert að öllum líkindum femínisti, jafnvel þótt þú sért ekki sammála þeim öllum,“ segir hún í byrjun bréfsins.
„Alveg eins og þú ert tónlistarmaður þótt einhver myndi segja að metall sé ekki tónlist. Að vera femínisti er nefnilega að vera ‘jafnréttissinni’ með meiru. Allir femínistar eru jafnréttissinnar sem átta sig á því að heldur hallar á hlut kvenna í þjóðfélaginu, alveg eins og hjartaskurðlæknir er læknir sem hefur sérhæft sig.“
Helga segir að femínismi sé undirflokkur í jafnréttisbaráttunni. „Alveg eins og Black Lives Matters baráttan í USA, og hér birtist þú bara og hrópar „All Lives Matter“ eins og sauður,“ segir hún.
„Auðvitað skipta öll líf máli, það eru allir sammála um það, en mergurinn málsins er að það virðist þurfa að minna á að svört líf skipti máli. Sama gildir um femínismann og því eru hreyfingarnar nefndar eftir þeim sem eiga undir högg að sækjast.“
Helga veltir fyrir sér hvort bróðir hennar upplifi ekki þörfina til að breyta heiminum en fullvissar hann um að fólk í lífi hans upplifi þá þörf mjög sterkt. „Þú sagðir við mig um daginn að konur þyrftu bara að vera betri að hafa sig í frammi,“ segir hún.
„Hversu margar tilraunir fyrir daufum eyrum heldur þú að liggi að baki hverri konu sem nær áheyrn? Rannsóknir sýna að það eitt að vera kvenkyns er til þess að bæði karlar og konur bera minni virðingu fyrir framlagi þínu. Glerþakið er erfitt að sjá fyrir þann sem ekki rekur hausinn í það.“
Hún segir að ef fólk með ítök ætli að hafa hátt um skoðanir sínar í fjölmiðlum sé það lágmarkskrafa að kynna sér fræðin áður en maður myndar sér skoðun.
„Þú hefur til að mynda áhrif á margan ungan manninn og nú hafa margir fengið leyfi til að kalla sig ekki femínista án þess að vita hvað það þýðir, því „Bibbi í Skálmöld sagði það.“ Tvær góðar leiðir eru til að kynna sér málefnið betur; lesa sér til (ég skal henda í yndislestursyfirlit hér að neðan) eða spyrja þá sem vita betur og hafa hugsanlega mikilla persónulegra hagsmuna að gæta.“
Hún telur svo upp fjölmargar konur í lífi Snæbjörns sem hafa fundið fyrir aggressívum kynjafordómum á eigin skinni. Smelltu hér til að lesa pistil Helgu.