Jón Viðar Arnþórsson, formaður Mjölnis, vonar að Gunnar Nelson fái sterkan andstæðing í næsta bardaga þrátt fyrir tapið gegn Santiago Ponzinibbio í Glasgow í gærkvöldi. Þetta sagði Jón Viðar í viðtali í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun.
Hann viðurkenndi að þetta væri töluvert bakslag fyrir Gunnar en sagðist þó vongóður um að kappinn fái að slást aftur í haust og þá gegn sterkari andstæðingi. Gunnar er nú á leið í sumarfrí en hann má ekkert æfa næstu 30 til 45 daga eftir rothöggið.
Sjá einnig: Gunnar Nelson fékk putta í augað: „Sá tvöfalt það sem eftir var af bardaganum“
Argentínumaðurinn náði að rota Gunnar aðeins rúmri mínútu eftir að bardaginn hófst en Gunnar hafði byrjað nokkuð vel. Gunnar sagði svo á blaðamannafundi eftir bardagann að Santiago Ponzinibbio hafi potað í augað á sér í upphafi bardagans sem hafði mikili áhrif.
Á myndinni hér fyrir neðan má sjá að Gunnar hefur ýmislegt til síns máls
Judge for yourself.
Double eyepoke in the beginning of the fight…Photo by Jerry McCarthy/KO! Media pic.twitter.com/kHPw5FcjUR
— Mjölnir (@MjolnirMMA) July 17, 2017
Jón Viðar segir að Gunnar hefði látið dómarann vita hefði verið hægt að gera allt að fimm mínútna hlé á bardaganum. „Kannski hefði ég séð þetta högg en svona er þetta,“ sagði Gunnar á blaðamannafundinum í gær en lagði áherslu á að hann væri ekki að afsaka sig heldur vera hreinskilinn.
„Gunni er töluvert betri en Santiago og þess vegna er mjög súrt að lenda í einu svona þungu höggi, “ sagði Jón Viðar í Morgunútvarpinu.