Málþingi um stöðu kvenna innan hipp hopp-senunnar sem fara átti fram á Kex Hostel í kvöld á vegum Reykjavík Grapevine hefur verið frestað. Valur Grettisson, ritstjóri Grapevine og skipuleggjandi málþingsins, segir á Facebook síðu sinni að ástæða frestunarinnar sé meðal annars vera vegna beiðni frá Kítón, félagi kvenna í tónlist. Fyrirhugað er að halda málþingið í samstarfi við samtökin síðar.
Sjá einnig: Valur segir hipp hopp-senuna þurfa að líta í eigin barm: „Stelpur eru óvelkomnar í strákaklúbbinn“
Fjarvera kvenna í úttekt um hipp hopp-senuna á Íslandi í síðasta tölublaði Grapevine var harðlega gagnrýnd á Twitter. Rappararnir í hljómsveitinni Úlfur Úlfur sögðu það sick að horfa gjörsamlega framhjá framlagi kvenna til senunnar en höfundur greinarinnar sagði að um misskilning væri að ræða; greinin fjalli aðeins um nýja listamenn undir tvítugu og að hún hafi hreinlega ekki fundið neinar konur á þeim aldri sem eru að gera hipp hopp.
Grapevine tilkynnti svo í síðustu viku að blaðið vildi bregðast við gagnrýninni með því að efna til málþings þar sem áttu að fara fram umræður um stöðu mála á mánudaginn. „Því það er alveg ljóst að vandinn við bága stöðu kvenna í hipp hoppi er ekki bundin við menningarumfjöllun Grapevine. Vandamálið ristir dýpra,“ sagði Valur af því tilefni.
Valur var í viðtali í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. Þar sagði hann meðal annars að erfitt hafi verið að fá listamenn til að tjá sig á opinberlega um málið. „Við töluðum við á þriðja tug einstaklinga, þar af fjölda þekktra listamanna og það treysti sér ekki einn karlmaður til að ræða málið á málþinginu,“ sagði Valur. Þá sagðist Valur telja að mikil kergja væri milli karla og kvenna í hip hoppi á Íslandi.