Gunnar Nelson, Haraldur Dean Nelson, faðir hans og Jón Viðar Arnþórsson formaður Mjölnis íhuga það nú alvarlega að kæra augnpot Santiago Ponzinibbio í bardaganum sem fram fór á sunnudagskvöld. Þetta segir Jón Viðar í samtali við DV í dag en þeir félagar ætla að hittast í hádeginu í dag og taka ákvörðun um málið.
„Við ætlum ekki að hafa lágt um þetta. Þetta var óheiðarlegt og á ekki að sjást í þessari íþrótt,“ segir Jón Viðar í samtali við DV.
Myndband sem sýnir hvernig Santiago Ponzinibbio potar að minnsta kosti tvisvar í augu Gunnars Nelson og kýlir með fingurna úti hefur verið birt á Youtube. Myndbandið má sjá í spilaranum hér að ofan.
Bardagi þeirra endaði í fyrstu lotu eftir að Santiago rotaði Gunnar Nelson. Gunnar sagðist á blaðamannafundi eftir bardagann hafa byrjað vel en eftir að hann náði fyrsta högginu á Santiago fékk hann fingur í augað. „Ég hefði átt að segja eitthvað því ég sá tvöfalt það sem eftir var af bardaganum,“ sagði hann.