Tia-Clair Toomey vann heimsleikana í Crossfit sem hófust í Wisconsin í Bandaríkjunum á fimmtudag. Keppninni lauk rétt í þessu.
Íslensku keppendurnir í kvennaflokki: Þær Anníe Mist Þórisdóttir, Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir og Katrín Tanja Davíðsdóttir röðuðu sér í þriðja, fjórða og fimmta sæti. Magnaður árangur. Kara Webb lenti í öðru sæti.
Björgvin Karl Guðmundsson er sem stendur í fimmta sæti í einstaklingskeppni karlanna nú þegar lokagreinin er framundan.
Íslensku konurnar hafa náð ótrúlegum árangri á heimsleikunum undanfarin ár. Anníe Mist vann heimsleikana tvö ár í röð, 2011 og 2012. Hún lenti í öðru sæti árin 2010 og 2014. Katrín Tanja vann tvo síðustu heimsleika eftir að hafa lent í 24. og 30. sæti árin áður. Ragnheiður Sara lenti í þriðja sæti tvö síðustu ár.