Indíana Nanna Jóhannsdóttir, 24 ára vefstjóri, hóptíma- og einkaþjálfari og bloggari, deildi fyrr í sumar myndum af líkama sínum á Instagram sem vöktu töluverða athygli. Samhliða því birti Indíana bloggfærslu þar sem hún talaði um hvernig sami líkaminn getur verið mismunandi eftir líkamsstöðu og birtu.
Hún vildi með þessu minna á að raunveruleikann væri ekki alltaf að finna í glansmyndinni. Indíana segist í samtali við Nútímann hafa fengið mikil viðbrögð við færslunni, sérstaklega frá ungum stelpum.
Hún ákvað í kjölfarið að halda málefninu á lofti og hefur verið dugleg við að birta uppbyggjandi efni á samfélagsmiðlum. „Þessar myndir voru hreinskilnar og raunverulegar og það er eitthvað sem ég held að fólk tengi mikið við og vilji sjá meira af á samfélagsmiðlum þar sem glansmyndin er hvað mest ríkjandi,“ segir Indíana.
Hún segir samfélagsmiðla hafa sína kosti og galla en telur að hægt sé að nýta þá til að koma uppbyggjandi skilaboðum á framfæri í meira mæli. „Ég held bara að það sé gott að fá smá raunveruleikasprautu við og við og þá eru samfélagsmiðlar góður vettvangur til þess.“
Indíana telur að sjálfsöryggi geti verið mismunandi eftir dögum og aðstæðum og að það eigi við um konur jafnt sem karla. Hún vill hvetja fólk til þess að vera ekki of dómhart í eigin garð
Ég get verið með bullandi sjálfstraust fyrir hádegi og liðið vel en síðan getur sagan verið allt önnur eftir hádegi.
Indíana segir að fólk skapi sitt eigið sjálfsöryggi og hvetur fólk til að vera duglegt við að rækta það. „Sjálfstraust er eitthvað sem við þurfum að þjálfa á hverjum degi alveg eins og líkamann eða hvað annað,“ segir Indíana Nanna.