Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þingkona Sjálfstæðisflokksins, hefur beðist afsökunar á því að hafa óskað eftir tengil á streymi á bardaga Conor McGregor og Floyd Mayweather sem fór fram aðfaranót sunnudags. Stundin vakti athygli á tísti Áslaugar á Twitter þar sem hún óskaði eftir streyminu.
Stjórnarformaður Félags rétthafa í sjónvarps- og kvikmyndaiðnaði sagði í frétt Stundarinnar sorglegt að þingmenn nýti sér ólöglega þjónustu. Þá var bent á í Frétt Vísis um málið að Áslaug Arna er formaður allsherjar- og menntamálanefndar en undir hana heyra meðal annars málefni fjölmiðla og starfsumhverfi þeirra.
Áslaug segist á Facebook-síðu sinni hafa gert mistök og að hún biðjist velvirðingar á því. „Stundum þegar mikið liggur við þá leitar maður langt yfir skammt, kannski hvatvísi en alla vega hugsunarleysi,“ segir hún.
„Ég veit betur en get bara beðist afsökunar. Mér skilst að ég hafi misst af góðum bardaga.“