Sjónvarpsmaðurinn Logi Bergmann Eiðsson, leggur það til við stjórnvöld að við færumst nær nútímanum og leyfum leigubílakerfið, Uber, í pistli í Fréttablaðinu í morgun. Hann gefur lítið fyrir óskir leigubílsstjóra um að borgin byggi upphituð skýli fyrir farþega og vill frekar að brugðist verði við skorti á leigubílum.
„Hvernig væri bara að byrja á vandanum sjálfum – skorti á leigubílum. Og mig, sem hef reyndar aldrei keyrt leigubíl, langar til að koma með mitt innlegg í þessa umræðu. Leyfum Uber,“ skrifar Logi.
Sjá einnig: Örskýring: Leigubílaþjónustan Uber á Íslandi
Logi bendir á að öll þjónusta sem fram fer í gegnum Uber sé skráð og því sé öryggið mikið og upplifunin betri. „Leigubílstjórar eru ekki með pening í bílnum því allt fer í gegnum kort og Paypal. Leigubílstjórar og farþegar fá einkunn og því er hægt að forðast lélega bílstjóra,“ skrifar Logi.
Til dæmis bílstjóra sem reykja hálfan pakka á dag í bílnum og halda að enginn fatti neitt af því að þeir opna gluggann aðeins. Eða þá sem virðast ekki geta komið bílnum af stað án þess að botna Útvarp Sögu.
Logi er ekki bjartsýnn á að Íslendingar séu tilbúnir fyrir frjálslyndi sem þetta. „Ef til vill óttast stjórnmálamenn hreinlega að lenda á grautfúlum leigubílstjóra. En kannski er ástæðan einfaldlega sú að það er frekar ólíklegt að rekast á pólitíkus um miðja nótt í leigubílaröðinni.“
Smelltu hér til að lesa pistil Loga.