Heimasíða ABC Barnahjálpar hreinlega hrundi undan álagi eftir þátt Ísland í dag í gærkvöldi. Í þættinum hitti Kara Rut Hansen styrktarson sinn, Amis Agaba, sem hún hefur stutt í gegnum ABC Barnahjálp undanfarin níu ár. Saga þeirra Köru og Amis hefur greinilega hrifið marga því um leið og þættinum lauk tóku margir við sér og vildu gerast stuðningsaðilar samtakanna.
Sjá einnig: Ótrúleg stund þegar Kara hitti strákinn sem hún hefur stutt í gegnum ABC Barnahjálp í níu ár
Sigurlín Sigurjónsdóttir, starfsmaður hjá ABC Barnahjálp segist í samtali við Nútímann vera afar þakklát fyrir viðbrögðin sem þátturinn fékk. „Heimasíðan okkar hreinlega sprakk og síminn hefur ekki stoppað,“ segir Sigurlín.
Nú þegar hafa yfir 100 nýir stuðningsaðilar bæst í hópinn hjá ABC Barnahjálp og Sigurlín hvetur fólk sem hefur áhuga á að gerast stuðningsaðilar til að hringja í samtökin í síma 414-0990 á meðan heimasíðan liggur niðri.