Lagið B.O.B.A sem þeir JóiPé og Króli sendu frá sér á mánudag féll heldur betur í kramið hjá þjóðinni en lagið fór beint á toppinn á Youtube. Lagið hefur nú þegar verið spilað yfir 70 þúsund sinnum og það eru spennandi tímar framundan hjá þeim félögum en þeir byrjuðu að vinna saman í tónlist í janúar á þessu ári.
Lagið vinsæla kemur út á Spotify á föstudaginn ásamt nýrri plötu sem ber heitið, GerviGlingur. Kristinn Óli Haraldsson eða KRÓLI eins og hann kallar sig segir í samtali við Nútímann að gríðarleg vinna hafi farið í gerð plötunnar sem mun koma inn á Spotify á miðnætti þann 8. september.
„Okkur þykir vænt um þessa plötu. Það fór massívur tími og massív orka í að gera hana,“ segir KRÓLI.
Aðspurður um hvort fleiri slagara megi finna á plötunni segir KRÓLI plötuna vera mjög heilsteypta í gegn og að þeir séu mjög sáttir við útkomuna.
Vinsældir lagsins B.O.B.A komu þeim JóaPé og KRÓLA mikið á óvart. „Við erum búnir að sitja á þessu lagi í smá tíma og maður bjóst alls ekki við þessu,“ segir hann.