Magnús Sigurjón Guðmundsson eða Maggi Peran eins og hann er kallaður fær gamlan draum uppfylltann í byrjun október þegar hann getur farið með syni sínum, Gabríel Úlfi, á leik Íslands og Kósóvó. Landsliðsmaðurinn Birkir Már Sævarsson setti sig í samband við þá feðga í gær og bauð þeim á leikinn eftir að hann frétti af því að þeir hefðu reynt á fá miða á leik Íslands án árangurs fimm sinnum.
Maggi fór sjálfur oft á landsleiki með pabba sínum þegar hann var ungur en honum hafði lengi langað að upplifa slíkar stundir með syni sínum. „Ég hef lengi átt mér þann draum að fara með peyjann á landsleik því hann elskar fótbolta og landsliðið,“ segir Maggi í samtali við Nútímann.
Ég fór alltaf á leiki með pabba mínum í gamla daga og langaði að eiga þennan quality-tíma með mínum dreng.
Vegna uppgangs landsliðsins undanfarin misseri komast nú færri að en vilja á leiki liðsins og því hægara sagt en gert að verða sér úti um miða. „Ég reyndi örugglega fimm sinnum að fá miða en náði aldrei inn,“ segir hann.
Eftir misheppnaða tilraun við að fá miða fyrir þá feðga á leik Íslands og Kósavó setti Maggi inn færslu á Twitter þar sem hann sagði frá hrakförum þeirra feðga við að fá miða. Færslan fangaði athygli landsliðsmannsins Birkis Más Sævarssonar sem setti sig í samband við Magga og bauð þeim feðgum á leikinn.
„Drengurinn var kominn upp í rúm og var að fara að sofa. Ég spurði hann hvort hann væri til í að koma með mér á landsleikinn sem ég hafði sagt honum fyrr í dag að væri uppselt á. Hann spurði mig hvernig ég fékk miða og þá sýndi ég honum SMS-ið frá Birki.“
Úlfur sonur minn fékk fréttir rétt í þessu sem létu hann tárast. Er hægt að vera með fallegra hjarta? ?Birkir Már Sævarsson #FotboltiNet pic.twitter.com/bwAUGdiek5
— Maggi Peran (@maggiperan) September 12, 2017
Gleðin leyndi sér ekki hjá Gabríel sem fór heldur betur glaður að sofa í gærkvöldi. „Hann táraðist, og sótti fótboltaspjald af Birki frá því á EM í fyrra og öskraði svo: „JÁ!““