Auglýsing

Björt framtíð slítur ríkisstjórnarsamstarfinu og Viðreisn vill kosningar sem fyrst

Stjórn Bjartrar framtíðar hefur ákveðið að slíta samstarfi við ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar. Þetta kom fram í tilkynningu sem flokkurinn sendi frá sér í nótt. Í tilkynningunni kemur fram að ástæða slitanna sé alvarlegur trúnaðarbrestur innan ríkisstjórnarinnar.

Benedikt Sveinsson, faðir Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra, veitti Hjalta Sigurjóni Haukssyni meðmæli vegna umsóknar um að fá uppreista æru í fyrra. Hjalta var veitt uppreist æra í september í fyrra en hann var dæmdur í dæmdur í fimm og hálfs árs fangelsi í Hæstarétti fyrir áralöng kynferðisbrot gegn stjúpdóttur sinni árið 2004.

Guðlaug Kristjánsdóttir, stjórnarformaður Bjartrar framtíðar, segir í samtali við Vísi að ástæðan fyrir stjórnarslitunum sé trúnaðarbrestur. Sigríður Andersen dómsmálaráðherra greindi Bjarna Benediktssyni forsætisráðherra frá meðmælabréfi föður hans í júlí en þau héldu upplýsingunum leyndum fyrir samráðherrum og samstarfsflokkum í ríkisstjórn.

Í samtali við Vísi sagði Guðlaug að þarna hafi Sigríður og Bjarni verið að vinna í eigin hagsmunum frekar en almannahag. „Þetta er bara lína í sandinum sem við gátum ekki stigið yfir,“ segir hún.

Þingflokkur Viðreisnar telur réttast að boðað verði til kosninga hið fyrsta. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Viðreisn en flokkurinn fundaði í kjölfarið á yfirlýsingu Bjartrar framtíðar.

„Fréttir gærdagsins af málsmeðferð um uppreist æru hafa vakið sterk viðbrögð innan raða Viðreisnar, líkt og í samfélaginu öllu. Vinnubrögð í málum af þessu tagi verða að standast stranga skoðun þar sem ekkert er undan dregið,“ segir í tilkynningu Viðreisnar.

„Það er skylda stjórnvalda gagnvart almenningi og þolendum þeirra alvarlegu glæpa sem málið varðar. Í ljósi stöðunnar sem nú er komin upp telur þingflokkur Viðreisnar réttast að boðað verði til kosninga hið fyrsta,“ segir í tilkynningu þingflokksins.“

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing