Ari Jósepsson íhugar það nú alvarlega að bjóða sig fram til Alþingis þegar gengið verður til kosninga þann 28. október næstkomandi. Ari bauð sig fram til forseta í fyrra en dró síðan framboð sitt til baka skömmu fyrir kosningar. Ari er líklega þekktastur fyrir myndbönd sem hann hefur birt á Youtube við talsverðar vinsældir.
Hann segir í samtali við Nútímann að hann hafi rætt lauslega við Ingu Sæland um að ganga til liðs við Flokk fólksins en hann ætlar að tala betur við hana seinna í dag. Ari segist hafa sterka réttlætiskennd og vill berjast gegn fátækt. „Ég vil beita mér fyrir því að verkamannalaun verði hækkuð og heilbrigðiskerfið lagað,“ segir Ari.
Sjá einnig: Ari Jósepsson vill taka til á Bessastöðum: „Var hreint út sagt viðbjóður“
Eins og áður segir bauð Ari sig fram til embættis forseta Íslands á síðasti ári en hann segir að fjölmiðlar hafi valdið því að hann dró framboð sitt til baka. „Fjölmiðlar fjölluðu bara um Davíð Oddsson og Guðna og ég ákvað að hætta við.“