Karlmaður leitaði sér aðstoðar á Landspítalanum um síðustu helgi eftir að hafa fundið dauða mús í salati sem hann borðaði. Salatið var keypt á veitingastað í Reykjavík. Það er mbl.is sem greinir frá þessu.
Í frétt mbl.is kemur fram að haft var samband við Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur sem framkvæmdi úttekt á staðnum í kjölfarið. Að sögn Óskars Ísfeld, deildarstjóra Heilbrigðiseftirlitsins var staðnum lokað á meðan rannsókn fór fram. Eftirlitið taldi þó ekki þörf á því að loka staðnum áfram.
Músin var send til greiningar hjá sérfræðingum en þetta er ekki í fyrsta skiptið sem dýraleyfar finnast í matvælum sem flutt eru hingað til lands. Samkvæmt frétt mbl.is er rannsókn á atvikinu ekki lokið og munu endanleg viðbrögð Heilbrigðiseftirlitsins taka mið af niðurstöðum hennar.