Kynfræðineminn Indíana Rós fékk þúsundir fylgjendur á Snapchat eftir að hún byrjaði að nota samfélagsmiðilinn til að fræða fólk um kynlíf. Hún er í mastersnámi í kynfræði, sem hún segir að geti í raun kallast kynlífsfræði, í Philadelphiu í Bandaríkjunum og segir viðbrögðin við fræðslunni hafa verið mjög góð.
Indíana er með notendanafnið indianaros6 á Snapchat en heldur einnig út síðu á Facebook. „Ég hafði verið með fyrirlestra um sjálfsfróun á Íslandi en eftir að ég kom út fann ég fyrir þörfinni að halda áfram að fræða,“ segir hún í samtali við Nútímann.
Mér fannst mér vera pláss í Snapchat-flórunni fyrir fræðslu og ákvað því að slá til og opna aðgang. Ég byrjaði fræðsluna á umræðu um píkuna, sem endaði óvart á því að vera mjög löng en ég hafði bara svo mikið að segja, enda hefur mér fundist vanta almennilega fræðslu um píkuna.
13 ára aldurstakmark er á Snapchat og Indíana segir að hún sé ekki með neitt sérstakt aldurstakmark fyrir utan það. „Það verður ekki gróft kynlífstal á þessu aðgangi heldur er markmiðið að fræða,“ segir hún.
„Ef foreldrar eða forráðamenn eru ekki viss hvort þau ættu að leyfa unglingnum sínum að vera með þennan aðgang þá er um að gera senda mér línu ef þau hafa einhverjar áhyggjur. Eða fylgjast sjálf með snappinu og sjá hvort þau vilji að barnið sitt fái þessa fræðslu, þau gætu jafnvel horft á fræðsluna með barninu og þannig getur skapast vettvangur fyrir þau að ræða um málin og foreldrarnir geti frætt börnin.“
Indíana segir að viðbrögðin hafa verið ótrúlega góð og að hún hafi fengið rúmlega tvö þúsund fylgjendur á einum á sólarhring eftir að hún fór af stað. „Það er fjöldi sem ég hafði aldrei ímyndað mér að ná,“ segir hún.
„Ég hef fengið æðisleg skilaboð þar sem fólk er að þakka fyrir fræðsluna, að það hafi vantað svona og fékk ég mörg skilaboð eftir umræðuna mína um píkuna að það hafi vantað góða fræðslu um píkuna á heilbrigðan og fræðandi máta.“
Hún fær einnig margar spurningar tengdar kynlífi og reynir að svara þeim af bestu getu, bæði á Facebook-síðunni og á Snapchat. „En á báðum miðlunum lofa ég 100 prósent nafnleynd,“ segir hún.