Auglýsing

Páll Óskar svarar frétt Vísis og birtir allt bréfið til aðdáenda sinna: „Ég las þetta dreifingarstarf kolvitlaust“

Poppkóngurinn Páll Óskar Hjálmtýsson segist þurfa að taka fulla ábyrgð á því að hafa klúðrað lokahnykknum í dreifingu á nýjustu plötu sinni. Páll Óskar hafði lofað að mæta í eigin persónu heim til þeirra sem pöntuðu plötuna á vefnum Heimkaup.is fyrir 14. júlí — hvert á land sem er.

Vagna Sólveig Vagnsdóttir, trélistakona á Þingeyri, sagðist ekki sátt við Pál Óskar í frétt á Vísi í gær og sakaði hann um að plata fólk til að kaupa plötuna sína. „[Hann] sagðist ætla að koma og afhenda hana og margir keyptu plötuna bara vegna þess. Nú sendir hann tölvupóst og segist ætla að senda hana í pósti,“ sagði hún á Vísi

Þá sagði hún að sér hafi verið skapi næst að krefjast endurgreiðslu þegar hún fékk póst um málið frá Páli. Páll Óskar bendir á í færslu á Facebook að aðeins sé vitnað í hluta tölvupósts hans til aðdáenda sinna í frétt Vísis. Hann birtir allan póstinn og þar kemur meðal annars fram að fólki hafi verið boðin endurgreiðsla. Umræddan póst má sjá hér fyrir neðan.

Páll Óskar segist ekki hissa á viðbrögðum fólks við frétt Vísis. „Fréttin var hálfsögð saga sem bauð upp á slík viðbrögð,“ segir hann

Ég myndi aldrei stunda peningaplokk eða vörusvik. Ef ég býð upp á eitthvað til sölu, plötu eða tónleika, þá fær kúnninn venjulega meira fyrir peningana en hann átti von á.

Í færslu sinni segist Páll Óskar þurfa að taka ábyrgð á því að hafa klúðrað lokahnykknum í dreifingu plötunnar. „Ég þarf smá hvíld til að ná orkunni minni til baka,“ segir hann.

„Ég þarf að minnka umfangið á dreifingunni og það eru margar lausnir í boði. Ég endurgreiði öllum sem það kjósa. Restinni af upplaginu verður dreift áfram til þeirra sem vilja.“

Þá býður hann fólki að mæta sér á miðri leið; á Akureyri, Ísafirði, Egilsstöðum og í Kópavogi. „Þar sem allir eru velkomnir í myndatökur með mér ef þeir óska þess. Ég trúi því að þetta sé það besta sem ég get gert í staðinn. Ég las þetta dreifingarstarf gjörsamlega kolvitlaust. Enginn annar.“

Póst Páls Óskars til þeirra sem keyptu plötuna má sjá hér fyrir neðan

Ástarþakkir fyrir að panta Kristalsplötuna mína í forsölu á Heimkaup.is.

Ég ætlaði að vera svo kúl og dreifa plötunni sjálfur til allra þeirra sem forpöntuðu hana og hlakkaði mikið til að hitta alla.

En sú vinna krefst meiri andlegrar og líkamlegrar orku en mig óraði fyrir og ég verð einfaldlega að játa mig sigraðan. Ég get ekki dreift fleiri plötum. Ég vona að þú getir fyrirgefið mér.

Ég veit að það kemur ekki í stað persónulegrar heimsóknar en mig langar að koma til móts við þig. Mig langar að gefa þér áritað risaplakat, senda þér áritaða plötu og bjóða þér að koma og hitta mig í myndatöku.

Ég ætla að mæta spariklæddur og tilbúinn í myndatökur og áritanir á eftirtalda staði:

  • Egilsstöðum, Hótel Valaskjálf, sunnudaginn 15. október kl. 16.00-18.00.
  • Heimkaup.is, Smáratorgi 3. Kópavogi, laugardaginn 4. nóv frá kl. 13:00-16:00.
  • Ísafirði, Edinborg Bístró, laugardaginn 25. nóv kl. 14.00-16.00.
  • Akureyri, Imperial, Glerártorgi laugardaginn 16. des kl. 13.00-15.00.

Þú getur valið um þrennt:

  1. Þú gerir ekkert. En Heimkaup.is sendir þér áritaða plötu og plakat heim að dyrum þriðjudaginn 17. október.
  2. Þú færð persónuleg skilaboð á plötuna og Heimkaup.is kemur henni strax til þín. Sendu tölvupóst á palloskar@heimkaup.is og láttu mig vita á hvern ég á að stíla plötuna og hvað ég á að skrifa. Þú færð að sjálfsögðu áritað plakat líka.
  3. Ef þú vilt hætta við kaupin mun Heimkaup.is endurgreiða þér plötuna strax. Sendu tölvupóst á samband@heimkaup.is og þú færð endurgreitt.

Ég biðst innilegrar afsökunar á þessum breytingum, en ég vona að við mætumst á miðri leið – og gaman væri að sjá þig á Egilsstöðum, Kópavogi, Akureyri eða Ísafirði.

Með fyrir fram þökk fyrir þolinmæðina,
Palli

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing