Auglýsing

Lilja lýsti ruddaskap Ed Westwick og var sögð ástæða þess að íslenskar stelpur væru kallaðar druslur

Leikarinn Ed Westwick, sem er frægastur fyrir hlutverk sitt í þáttunum Gossip Girl, sparkaði í íslenskar stelpur sem dáðust að honum og grýtti myndavélum þeirra í jörðina þegar hann kom til landsins fyrir sjö árum. Hann kom einnig ruddalega fram við konur sem neituðu að sofa hjá honum. Nú hefur hann verið sakaður nauðgun.

Sjá einnig: Ed Westwick úr Gossip Girl sakaður um nauðgun: „Ég vaknaði svo við að Ed var ofan á mér“

Fyrirsætan Lilja Ingibjargardóttir sagði frá samskiptum sínum við Ed á sínum tíma eftir að þau hittust á bar í Reykjavík. Hún sagðist hafa neitað að sofa hjá honum og að eftir það hafi hann hagað sér ruddalega. Í kjölfarið var Lilja sökuð um lygar og kölluð öllum illum nöfnum.

Í samtali við Nútímann gefur Lilja lítið fyrir yfirlýsingu sem Ed birti á Instagram þar sem hann segist saklaus ásamt því að fullyrða að hann hafi „aldrei þröngvað sér á konu á nokkurn hátt.“ Hún vonar að málið fari rétta leið í dómskerfinu.

Miðað við það sem ég sá af honum þá trúi ég henni. Ég vona bara að málið hennar sé ekki fyrnt og að hún muni fylgja því eftir.

Í umræddu viðtali við DV árið 2011 lýsti Lilja því hvernig Ed hagaði sér í samskiptum við íslenskar konur. „Konur hrifust af honum og sóttu að honum en hann var drukkinn og brást illa við. Hann sparkaði í stelpur, grýtti myndavélum þeirra í jörðina og kom illa fram við þær,“ sagði hún meðal annars.

Í kjölfar viðtalsins tóku margir afstöðu með Ed Westwick og sökuðu Lilju um lygar. „Ég var kölluð öllum illum nöfnum og mér var hótað. Ég var sögð ástæða þess að íslenskar stelpur væru kallaðar druslur,“ segir Lilja.

„Margir sögðu að það væri bara ein ástæða fyrir því að kvenmaður færi með karlmanni upp á hótelherbergi og það væri til að sofa hjá honum.“

Lilja segir að það hafi verið erfitt að taka þessum ásökunum en að hún hafi reynt að láta umtalið ekki hafa áhrif á sig „Það er auðvitað alltaf særandi að heyra svona en ég er komin með svo þykkan skráp eftir allt umtal um mig að ég lét þetta sem vind um eyru þjóta,“ segir Lilja að lokum.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing