Sophie-Claire Hoeller, blaðamaður á vefnum Insider, hefur birt grein þar sem farið er yfir hluti sem fólk þarf að vita áður en það fer til Íslands. Á meðal þess sem hún bendir fólki á að hafa í huga er að maturinn sé brjálæðislega dýr, að vatnið lyktið ógeðslega þrátt fyrir að vera drykkjarhæft og að það séu hjarðir af fólki úti um allt.
Insider er vinsæll vefur með níu milljónir læka á Facebook og búið er að deila pistlinum hátt í 200 þúsund sinnum þegar þetta er skrifað. Sophie-Claire segir í upphafi greinar sinnar að Ísland sé land augnabliksins og að hreinlega allir séu að fara þangað. Þá bendir hún á að það sé fullkomið að taka langa helgi á Íslandi en bætir við að fólk þurfi að hafa nokkra hluti í huga áður en það bókar ferðina.
Sophie-Claire segist hafa borgað tæpar tvö þúsund krónur fyrir beyglu með laxi og rjómaosti og segir að það sé fullkomlega eðlilegt á Íslandi.
Eftir að hafa búið í New York, einni dýrustu borg heims, þá taldi ég mig þekkja dýran mat. Mér skjátlaðist.
Þá segir hún að vatnið á Íslandi lykti eins og úldin egg þrátt fyrir að vera fullkomlega drykkjarhæft. „Enginn sagði okkur þetta og við eyddum ofþornuðu kvöldi í íbúðinni okkar eftir að allar búðirnar lokuðu.“ Það hefur greinilega líka gleymst að segja henni frá öllum búðunum sem eru opnar allan sólarhringinn.
Hún segir einnig meðal annars að það séu hjarðir af fólki alls staðar, framkvæmdir úti um allt og að salernin séu fá og það sé langt á milli þeirra, ásamt því að það sé tekið gjald fyrir að nota nokkur þeirra. „Þannig að þið skuluð passa að skipuleggja pissupásurnar vel.“