Enska úrvalsdeildarfélagið Manchester United ætlaði að vera með njósnara á vináttuleik Íslands og Tékklands sem fór fram í Doha í Katar í gær. Félagið sendi sinn mann hins vegar óvar til Reykjavíkur og kom hann að luktum dyrum á Laugardalsvelli. Þetta kemur fram á vefnum Fótbolti.net.
Í frétt Fótbolta.net kemur fram að Manchester United hafi í upphafi verið með allt sitt á hreinu. Félagið hafði samband við KSÍ með góðum fyrirvara og sendi danskan njósnara af stað í verkefnið. „Hann mætti hinsvegar galvaskur á Laugardalsvöll í gær og skildi ekkert afhverju öll ljós væru slökkt og enginn heima,“ segir í fréttinni.
Njósnarinn hafði svo samband við fulltrúa frá KSÍ sem sagði honum að leikurinn færi fram í Katar. Leiknum lauk með 2-1 sigri Tékka en Kjartan Henry Finnbogason skoraði mark Íslands með góðum skalla.