Grínistinn Louis CK hefur viðurkennt að hafa áreitt fimm konur kynferðislega. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem grínistinn sendi frá sér í dag og er fjallað um á vef BBC.
Louis hefur yfirlýsingu sína á því að segja að sögurnar sem konurnar fimm sögðu í New York Times séu sannar. Frásagnir þeirra voru keimlíkar en hann spurði þær flestar hvort hann mætti taka út á sér liminn áður en hann gerði það og fróaði sér fyrir framan þær.
„Á þessum tíma sannfærði ég sjálfan mig um að þessi hegðun væri í lagi vegna þess að ég sýndi aldrei konu á mér typpið án þess að spyrja fyrst,“ segir Louis í yfirlýsingu sinni.
En það sem ég hef lært, of seint, er að þegar þú ert í valdastöðu gagnvart manneskju þá er það ekki raunveruleg spurning að óska eftir að fá að sýna viðkomandi á sér typpið. Ég er að koma þeim í vandræði.
Louis segir í yfirlýsingunni að konurnar hafi dáðst að honum sem setti hann í valdastöðu gagnvart þeim. „Ég misbeitti þessu valdi,“ segir hann.
„Ég sé eftir því sem ég gerði. Ég hef reynt að læra af þessu. Og hlaupa frá þessu. Nú átta ég mig á afleiðingum gjörða minna. Í gær komst ég að því að það sem ég gerði hefur valdið því að konunum líður illa með sjálfar sig og þær vara sig á mönnum sem myndu aldrei koma þeim í þessa stöðu.“
Louis viðurkennir líka að hafa nýtt sér þá staðreynd að hann er virtur í samfélagi sínu og þeirra sem hindraði þær í að segja frá. „Það gerði þeim erfitt fyrir þegar þær reyndu að segja frá vegna þess að fólk leit upp til mín og vildi ekki hlusta á þær. Ég áttaði mig ekki á þessu vegna þess að staða mín leyfði mér að hugsa ekki um þetta,“ segir hann.
„Ég hef ekki fyrirgefið sjálfum mér. Og ég þarf að sættast við hvaða mann ég hef að geyma. En það er ekkert í samanburði við verkefnin sem ég skildi eftir á herðum þeirra. Ég vildi að ég hefði brugðist við aðdáun þeirra með því að vera góð fyrirmynd og gefið þeim góð ráð sem grínisti vegna þess að ég dáðist að verkum þeirra.“
Louis segir erfiðast að lifa með því að hafa sært annað fólk og ásamt því að nefna konurnar segist hann hafa komið samstarfsfólki, umboðsmanni sínum og fjölskyldu í ömurlega stöðu. „Ég hef sært fjölskyldu mína, vini, börnin mín og móður þeirra. Ég hef eytt stórum hluta ferils míns í að segja það sem ég vil. Nú stíg ég til hliðar í langan tíma og hlusta.“