Leikaranum Þóri Sæmundssyni var vikið frá störfum í Þjóðleikhúsuni eftir að hann sendi mynd af sjálfum sér með stífan getnaðarlim til samstarfskonu í leikhúsinu á Menntaskólaaldri. Þetta kemur fram á Vísi. Í viðtali við DV gengst hann við því að hafa farið yfir strikið og segist hafa leitað sér hjálpar.
587 konur sem starfa í sviðslistum á Íslandi hafa skrifað undir áskorun þar sem þess er krafist að karlar inna geirans taki ábyrgð á kynferðislegu ofbeldi og áreitni og að yfirvöld, leikhús og framleiðslufyrirtæki taki af festu á málinu og komi sér upp verkferlum og viðbragðsáætlun.
Þórir lék í sýningunum Í hjarta Hróa hattar og Djöflaeyjunni í Þjóðleikhúsinu þegar upp komu mál þar sem hann var sakaður um að senda stúlkum ósiðlegar myndir af sjálfum sér. Samkvæmt Vísi var hann kallaður á teppið í Þjóðleikhúsinu eftir að nafnlaus ábending barst um að hann hafi sent 15 ára stúlku slíkar myndir.
Í frétt Vísis kemur fram að önnur ábending hafi borist, í þetta skipti um að Þórir hafi sent aukaleikara á menntaskólaaldri mynd af sjálfum sér með stífan getnaðarlim og var honum þá sagt upp störfum. Í viðtalinu við DV segir Þórir að umræddar myndir séu ekki ástæðan fyrir brottrekstrinum. „Í gögnum leikhússins og mínum þá er það ekki ástæðan,“ segir hann.
Í viðtali við DV segist Þórir hafa farið til sálfræðings. „Mér finnst hrikalega erfitt að tala um þetta en eins og ég segi þá er ég að gangast við því sem ég hef gert og er að reyna að taka ábyrgð á því,“ segir hann.
Það er ekki eitthvað sem ég er bara að segjast gera. Ég er í ferli með sálfræðingi og í samtökum fyrir fíkla um þessa stjórnlausu hegðun og vinna bug á henni og breytast því auðvitað veit ég að þetta er rangt en eina vörnin mín er í rauninni að vilja ekki gangast við því að ég sé barnapervert.
Þórir segist í viðtalinu í DV ekki hafa vitað hversu gamlar stúlkurnar voru. „Ég veit ekki hvaða mynd þetta er, ég veit ekki hvaða stúlka þetta er, eða stúlkur eins og þú segir. Ég átti í svona samskiptum við fólk sem ég vissi ekki hver voru. Það held ég sé mest í gegnum frægustu stefnumótasíðu íslands,“ segir hann.
„Þar sem allir eru undir dulnefni þangað til þú velur að gera annað. Þú átt í samskiptum við manneskju og á einhverjum tímapunkti verður til kannski traust og þá fyrst sendir þú andlitsmynd af þér og segir hver þú ert. Þannig er það ekki á Snapchat. Þar ertu bara þú sjálfur og ég sé núna þennan algjöra dómgreindarbrest og dómgreindarleysi hjá mér að eiga í samskiptum við einhvern sem er bara með Snapchat-reikning sem heitir eitthvað bara eitthvað, bara einhverjir tölustafir eða eitthvað.“