Auglýsing

Dóttir Steinunnar Valdísar var tíu ára þegar mótmælt var við heimilið: Grét á kvöldin í rúmar fimm vikur

Kristrún Vala Ólafsdóttir, dóttir Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur fyrrverandi borgarstjóra og alþingiskonu, segir frá upplifun sinni af mótmælum við heimili þeirra fyrir átta árum í færslu á Facebook. Kristrún var þá tíu ára gömul.

Steinunn Valdís tjáði sig um mótmælin í Silfrinu á RÚV á sunnudag. Mótmælt var fyrir utan heimili hennar í apríl árið 2010 og þess krafist að hún myndi segja af sér vegna styrkja sem hún þáði á árunum 2006 til 2007. Steinunn Valdís saði af sér þingmennsku í maí árið 2010.

„10 ára gömul stúlkan kom heim einn daginn og þá biðu þær fréttir að um kvöldið myndi líklegast koma fólk, karlar, og standa fyrir utan heimilið,“ segir Kristrún í færslu sinni.

Verandi barn skildi stúlkan lítið sem ekkert hvað það þýddi og lét það lítið á sig fá. Þangað til að fréttirnar urðu að veruleika. Stúlkan horfði út um eldhúsgluggann og sá þar karla, reiða karla, sem einhverra hluta vegna voru þarna vegna þess að reiðu karlarnir sögðu að mamma hennar væri vond.

Kristrún Vala segist hafa verið hrædd við reiðu karlana og ekki þorað á æfingar. Hún gerði krók á leið sína heim til þess að þurfa ekki að hjóla framhjá þeim og segir frá því að einn daginn hafi þeir tekið myndir af henni og vinkonum hennar þegar þær gengu framhjá þeim.

„Stúlkan og vinkonurnar voru miður sín þegar þær stigu inn heima hjá stúlkunni. Fullorðna fólkið inni sagði þeim að þær þyrftu að biðja þá um að eyða myndunum. Stúlkan og vinkonur hennar þurftu 10 ára gamlar að fara aftur út í hóp reiðu karlana og biðja þá vinsamlegast um að þurrka út myndirnar sem fullorðnu karlmennirnir tóku af ungu stúlkunum,“ segir hún.

„Stúlkan var hrædd. Hún þóttist hafa talað við þá en hún þorði því ekki. Stúlkan reyndi að vera sterk, hún reyndi að vera sterk fyrir mömmu. Því hún vissi að mamma væri sterk. En stúlkan grét mikið inni hjá sér.“

Mótmælin stóðu í fimm vikur og Kristrún Vala segist hafa þurft að mana sig upp í að fara af heimili sínu. „Í rúmar 5 vikur grét stúlkan á kvöldin, stundum fékk hún martraðir um að reiðu karlarnir væru komnir inn í húsið. Stúlkan skildi aldrei til hins fyllsta hvers vegna karlarnir voru svona reiðir,“ segir hún.

Hún segist hafa óttast að tjá sig og verið óörugg á heimili sínu. Í dag segist hún ekki vera lengur hrædd við reiðu karlana. „Reiðu karlarnir komu ekki bara heim til mín og sátu um heimilið mitt. Reiðu karlarnir eru út um allt í samfélaginu,“ segir hún.

„Reiðu karlarnir hótuðu nauðgunum og hótuðu að sitja um heimili kvenna. Reiðu karlarnir hafa bælt niður skoðanir kvenna, í stjórnmálum, í listum, í menntakerfinu, í öllu samfélaginu. Nú er snjóboltinn farinn að rúlla og fá reiðu karlarnir það ekki stoppað.“

Í ljósi nýliðinna atburða fannst mér tímabært að skrifa sögu 10 ára barns í þessu öllu saman. Endilega gefið ykkur tíma…

Posted by Kristrún Vala Ólafsdóttir on Fimmtudagur, 7. desember 2017

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing