Auglýsing

Síminn veit hver stal Stellu Blómkvist: „Vonandi skilja þessir þrjótar á endanum að þeir eru að stela“

Síminn hefur kært stuld á þættinum Stellu Blómkvist til lögreglunnar en fyrsti þátturinn af sex er kominn í ólöglega dreifingu. Síminn telur sig vita hver stendur að baki dreifingunni og hefur veitt lögreglunni upplýsingar um málið.

Eins og Nútíminn greindi frá á dögunum þá hefur Síminn hannað rafræna þjófavörn til að sporna gegn ólöglegri dreifingu á Stellu Blómkvist. Með vörninni má sjá hjá hvaða áskrifanda þættinum var halað niður komi til þess.

Í tilkynningu frá Símanum kemur fram að örfáum mínútum eftir að þættinum var dreift hafi Síminn vitað hver var að verki. Á annað hundrað netverja hafa þegar sótt þáttinn.

Magnús Ragnarsson, framkvæmdastjóri afþreyingarmiðla og sölu Símans, segir að með þessu sé Síminn að vernda fjárfestingu sína. „Örfá fyrirtæki hér á landi fjárfesta í leiknu íslensku sjónvarpsefni og til að gefa einhverja hugmynd um tjónið þá er framleiðslukostnaður við svona seríu nær 600 milljónum króna,“ segir hann.

Það eru gríðarleg vonbrigði að sjá þáttinn á deilisíðum og vonandi skilja þessir þrjótar á endanum að þeir eru að stela. Sú staðreynd að þeir geta það ekki lengur í skjóli nafnleyndar hjálpar okkur vonandi.

Þættirnir um Stellu Blómkvist komu allir á sama tíma inn í Sjónvarp Símans Premium þann 24. nóvember og hafa þeir verið spilaðir 150 þúsund sinnum á heimilum viðskiptavina Símans. Sagafilm framleiðir þættina.

„Við erum afar ánægð með viðtökurnar og finnum hvað fólk kann vel að meta að fá aðgang að íslenskri þáttaseríu í heilu lagi og geta horft á hana á þeim tíma sem þeim hentar,“ segir Magnús.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing