Íbúar í Bláhömrum í Grafarvogi þurftu að bíða úti á svölum á fimmtu hæð í upp undir klukkustund á meðan slökkviliðið vann að því að slökkva eldinn sem kom upp í húsinu í nótt. Á meðal þeirra sem biðu var ófrísk kona. Þetta kemur fram á vef RÚV.
Eins og fram kom á Nútímanum í morgun er maður í lífshættu eftir að honum var bjargað úr fjölbýlishúsi í Bláhömrum um klukkan hálf þrjú í nótt. Eldurinn kom upp á fjórðu hæð og voru nokkrir íbúar fastir inni í íbúðum sínum um tíma. RÚV hefur eftir íbúa í húsinu að maðurinn hafi reynt að vekja nágranna sína áður en hann missti meðvitund í reyknum.
Árni Árnason, íbúi í húsinu, segir í samtali við RÚV að biðin eftir því að vera bjargað af svölunum hafi verið eins og heil eilífð. „Á svölunum var ungt par með okkur og konan er ólétt og hún var náttúrulega mjög stressuð,“ segir hann á vef RÚV.
Við kölluðum niður og sögðumst vera með ólétta konu á svölunum en þeir sögðu okkur að halda kyrru fyrir, sem við náttúrulega bara gerðum og fórum eftir þeim tilmælum sem þeir hrópuðu á okkur þegar við vorum að kallast á við slökkviliðið á jörðu niðri.
Sjö voru flutt á sjúkrahús og Rauði krossinn kom á staðinn með rútu þar sem fólk fékk aðhlynningu.